Stafrænt veski í formi smáforrits

Einar Gunnar Thoroddsen, sérfræðingur á skrifstofu stjórnunar og umbóta í …
Einar Gunnar Thoroddsen, sérfræðingur á skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Samsett mynd

Ísland er eitt sex landa sem tekur þátt í prufuverkefni á stafrænu auðkenningarveski, eða EU Digital Identity Wallet eins og það kallast á ensku. Danmörk, Noregur, Lettland, Ítalía og Þýskaland eru einnig með í verkefninu. 

Byggir þetta prufuverkefni á áætlun Evrópusambandsins (ESB) um stafræna breytingu og stafvæðingu til þess að styðja aðildarríki ESB og EES í sinni stafrænu vegferð. Þetta segir Einar Gunnar Thoroddsen, sérfræðingur á skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, í samtali við mbl.is.  

Prufuverkefni hluti af stærri heild

EU Wallet verkefnið samanstendur af fjórum mismunandi prufuverkefnum á vegum ESB en Ísland er einungis aðili að einu þessara verkefna.  

Markmiðið með þessu prufuverkefni að sögn Einars er tvíþætt.

Annars vegar að bjóða upp á stafrænt auðkenningarveski í formi smáforrits þar sem íbúar ESB og EES svæðisins geta með öruggum hætti geymt ýmis gögn, líkt og vegabréf, ökuskírteini eða starfsréttindi á einum áreiðanlegum stað. Þegnar svæðisins geta þar með miðlað gögnum úr veskinu til ýmist fyrirtækja, ríkisaðila eða einkaaðila.

Veskið á einnig að vera öruggur staður til að vista sértækar upplýsingar sem tengjast einstaklingnum, en gögnin verða ekki vistuð í símanum, heldur sækir smáforritið gögnin til viðkomandi stofnunar að sögn Einars.  

Önnur greiðsluleið

Ekki er einungis unnið að aðgengilegri leið fyrir íbúa aðildarríkjanna til að nálgast persónuupplýsingar sínar heldur verður líka að vera eitthvað notkunartilfelli (e. usecase), sem í tilviki Íslendinga eru greiðslur milli landa með millifærslu en ekki kortagreiðslu, segir Einar.

„Í þessu fælist að einstaklingur sem er í þessum prufuhóp ætti að geta labbað inn í raftækjaverslun og keypt sér síma og borgað með veskinu. Myndi greiðslan fara af kortinu, í gegnum íslenskan banka, til erlends banka og enda hjá versluninni með millifærslu en ekki kortafærslu,“ segir Einar.

Myndi þetta veita kortafyrirtækjum ákveðið mótvægi sem hafa nú þegar gríðarlega hlutdeild í greiðslum á alþjóðavísu. Auðkenningarveskið myndi þar með bjóða upp á aðra leið við að færa fjármagn til og frá.   

Þarf að prufa tæknina 

Spurður hvort að þetta tilraunverkefni verði svo að veruleika segir Einar að auðkenningarveskið, eða EU Wallet, verði það vissulega.

Verkefnið krefst náinnar samvinnu banka, smásöluaðila, tæknilegra byrgja í traustþjónustum og stjórnvalda, og er því hugsunin sú að vera með þessi prufuverkefni svo hægt sé að sjá hvaða þættir þurfi að vera til staðar og prufa tæknina áður en besta lausnin verði svo endanlega innleidd.

Prufuverkefnið hófst formlega þann fyrsta apríl og er til tveggja ára. Má vænta þess að tilraunaútgáfa af smáforritinu verði tilbúin til prufu fyrir sérstakan prufuhóp á næsta ári.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert