Þyngdarbylgjukliður fundinn í fyrsta sinn

Skýringarmynd um þyngdarbylgjuklið af heimasíðu NANOGrav.
Skýringarmynd um þyngdarbylgjuklið af heimasíðu NANOGrav. NANOGrav/Olena Shmahalo

Stjarneðlisfræðingar í NANOGrav verkefninu tilkynntu í dag að þeir hefðu fundið í fyrsta sinn merki um þyngdarbylgjuklið í alheiminum.

Sævar Helgi Bragason segir frá þessu í nýrri grein á stjörnufræðivefnum. Talið er að þyngdarbylgjurnar eigi að mestu rætur að rekja til samruna eða árekstra risasvarthola í miðju vetrarbrauta. Ef rétt reynist hjálpi niðurstöðurnar okkur betur að skilja risasvarthol, samruna vetrarbrauta og þróun þeirra.

Koma úr öllum áttum

Sævar segir að þegar hamfarir verði í alheiminum valdi það öldugangi, sem kallaður er þyngdarbylgjur. Hafi lengi verið talið að svona nokkuð gerist svo oft að geimurinn ætti allur að vera á iði eins og í ólgusjó.

Þyngdarbylgjukliður verður þá til þegar öldurnar komi úr öllum áttum í geimnum. Hann líkir kliðnum við kliðinn sem heyra má frá áhorfendum í sal þegar sinfóníuhljómsveit stillir saman strengi sína.

Byrjuð að hlusta á alheiminn

Til þess að nema þessar bylgjur notast stjarneðlisfræðingar við leifar sprunginna stjarna, litlu minni en höfuðborgarsvæðið, og þá tíðni sem hægt er að nema frá þeim. Þær eru notaðar til tímamælinga, og notast vísindamenn við um 70 slíkar í Vetrarbrautinni okkar.

Á 15 ára tímabili voru áhrif þessarar gríðarlöngu þyngdarbylgna á sprungnu stjörnurnar mældar. Sævar segir:

„Við erum byrjuð að hlusta á alheiminn með því að kortleggja ölduganginn í honum með hjálp dauðra stjarna! Það er dálítið magnað.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert