Rúmlega sex af hverjum tíu með börn í sinni umsjá finnast börn sín eyða of miklum tíma í snjalltækjum, þ.m.t. síma og spjaldtölvu, og myndu vilja draga úr notkun þeirra. Þá telur helmingur landsmanna sig verja of miklum tíma í snjalltækjum.
Þetta kemur fram í niðurstöðum Þjóðarpúls Gallup. Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 30. júní til 11. júlí. Heildarúrtak var 1.700 og þátttökuhlutfall 45,1%
Nær einu af hverjum tíu með börn tveggja ára eða yngri finnst börnin eyða of miklum tíma í snjalltækjum og hátt í fjórðungi fólks með börn á aldrinum þriggja til fimm ára.
Hlutfallið hækkar upp í rúmlega helming hjá fólki með börn á aldrinum sex til níu ára. Þá hækkar hlutfallið upp í rúmlega þrjá af hverjum fjórum hjá fólki með börn tíu ára eða eldri.
Eldri foreldrum finnst að jafnaði frekar en yngri foreldrum að börn sín eyði of miklum tíma í snjalltækjum, svo og foreldrum á höfuðborgarsvæðinu frekar en foreldrum á landsbyggðinni.