Átta sinnum fleiri Íslendingar þjást af lifrarsjúkdómi af völdum áfengisneyslu nú heldur en fyrir fjörutíu árum. Áfengisneysla hefur aukist um 74% miðað við höfðatölu á sama tímabili.
Þetta sýnir ný rannsókn, sem birtist nýverið í Scandinavian Journal of Gastroenterology, um þróun lifrarbólgu vegna áfengisneyslu á Íslandi yfir fjögurra áratuga tímabil. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Sjúkrahúsinu Vogi, segir niðurstöðurnar sláandi.
„Þetta er lærdómsríkt og ætti að vera eitthvað sem myndi slá þingmenn og þá sem setja lög og reglur. Gefa þeim gull í hendur til þess að hugsa um lýðheilsuna. Einn alvarlegur lifrarsjúkdómur hefur í för með sér gríðarlega mikinn kostnað fyrir ríkið og ekki síður alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinginn,“ segir Valgerður, sem er á meðal þeirra vísindamanna sem stóðu að rannsókninni.
Á árunum 1984 til 2000 þjáðust að meðaltali 0,77 manns af hverjum 100.000 af sjúkdómnum árlega en frá 2016 til 2020 náði fjöldinn 6,1 af hverjum 100.000. Áfengisneysla jókst úr 4,3 í 7,5 lítra árlega, þegar sömu tímabil eru borin saman.
Á tímabilinu töldust 314 greindir með sjúkdóminn, 76% voru karlmenn og meðalaldur þeirra 56 ár. 22% þeirra voru einnig með lifrarbólgu af völdum áfengisneyslu.
Þá voru batahorfur verri fyrir þá sem þjáðust af lifrarsjúkdómi af völdum áfengisneyslu en höfðu áður greinst með áfengissýki.
„Maður veit ekki hvað það þýðir en það má velta því upp hvort þeir einstaklingar séu komnir með mikinn vanda snemma og alvarlegri vanda, sem kemur þannig út líka að lífslíkur þeirra séu minni. Ýmislegt hefur áhrif á það,“ segir Valgerður og tekur fram að rannsóknin skoði ekki árangur af áfengismeðferð sérstaklega.
„Áfengi er langstærsta vandamálið og hefur alltaf verið. Það er frekar aukning á áfengisfíkn og vanda tengdu því hjá okkur heldur en á öðru.“
Rannsóknin tók til allra sjúklinga sem hafa verið lagðir inn á Sjúkrahúsið Vog í að minnsta kosti einn dag á árunum 1984 til 2020 vegna áfengissýki, auk þeirra sem hafa verið lagðir inn á Landspítala vegna lifrarbólgu af völdum áfengisneyslu. Þá var einnig upplýsinga aflað um sjúklinga sem höfðu greinst með lifrarskaða og lifrarbólgu af völdum áfengisneyslu á tímabili rannsóknarinnar.
Síðastliðin 45 ár hafa 28.000 manns verið innritaðir á Sjúkrahúsið Vog vegna fíknar en á árunum 1984 til 2020 voru 21.845 manns innritaðir á Vog vegna áfengissýki. 70% þeirra sem greindust með lifrarbólgu af völdum áfengisneyslu fóru í áfengismeðferð á tímabili rannsóknarinnar.