Orkan fjölgar hraðhleðslustöðvum

Orkan hefur opnað hraðari hleðslustöðvar á Vesturlandsvegi og Birkimel.
Orkan hefur opnað hraðari hleðslustöðvar á Vesturlandsvegi og Birkimel. Ljósmynd/Orkan

Orkan hefur opnað hraðhleðslustöðvar á Birkimel og Vesturlandsvegi, en með tilkomu hleðslustöðvanna geta sex bílar fengið hleðslu á sama tíma. 

Í tilkynningu sem Orkan sendi frá sér í dag segir meðal annars að á stöðvunum sé nú að finna sex hleðslustaura, fimm með öflugum CCS-tengjum og einn með bæði CCS-tengi og CHAdeMO-tengi. Þá sé hleðslustöðin á Birkimel 600kW, en á 400kW á Vesturlandsvegi. 

Fram kemur í tilkynningunni að hraðhleðslustöðin á Birkimel sé knúin áfram af rafmagni frá orkusalanum Straumlind sem notar eigin hugbúnað, gervigreind og sjálfvirkni til þess að tryggja viðskiptavinum sínum hagstæðasta verð á rafmagni á Íslandi.

Hægt verður að greiða fyrir hleðslu með Orkulykli, greiðslukorti og snertilausum greiðslum og er því ekki þörf fyrir sérstakt snjallforrit við notkun hleðslustöðvanna. 

Orkan rekur 72 Orkustöðvar um allt land og stefnir á að fjölga hratt hraðhleðslustöðvum á næstu misserum, en til stendur að opna hraðhleðslustöð hjá Orkunni á Laugavegi seinna í vikunni.

„Orkuskipti í samgöngum eru risastórt verkefni og með þessu erum við að taka okkar fyrsta skref í þeirri vegferð. Okkur fannst mikilvægt að koma inn á orkumarkaðinn með krafti og þess vegna urðu hraðhleðslur fyrir valinu á okkar stöðvum. Markmið Orkunnar er ávallt að einfalda líf viðskiptavina á ferðinni og hlökkum við til að sjá hvernig tekið verður í þessa nýjung hjá okkur,“ er haft eftir Auði Daníelsdóttur, forstjóra Orkunnar í tilkynningunni. 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka