„Farin að hríslast um allt þjóðfélagið“

Halldór Björnsson kynnir niðurstöður skýrslunnar í Grósku í morgun.
Halldór Björnsson kynnir niðurstöður skýrslunnar í Grósku í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Fjórða matsskýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar, sem var kynnt í Grósku í morgun, endurspeglar að þessar breytingar eru farnar hríslast um allt þjóðfélagið.

Þetta segir Halldór Björnsson, formaður vísindanefndar.

Í skýrslunni kemur fram að loftslagsbreytingar séu byrjaðar að breyta náttúrufari og lífsskilyrðum fólks á Íslandi með vaxandi áskorunum fyrir efnahag, samfélag og náttúru.

Meira fjallað um samfélagsáhrif en áður

Síðasta skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar kom út árið 2018 en vinnan við þessa skýrslu hófst sumarið 2021. Hún var unnin upp úr yfir 100 erindum sem voru haldin á 11 málstofum þar sem þátttakendur voru rúmlega 240 manns.

„Stóri munurinn er að þessi er með miklu meiri samfélagskafla. Það eru bæði efnahagsmál, samfélagsmál, menning, listir, siðferði, skólar, menntun og slíkt. Svo er heill kafli um heilbrigðismál sem var ekki áður,” greinir hann blaðamanni frá í Grósku að loknum kynningarfundinum.  

„Þetta endurspeglar, held ég, að loftslagsbreytingar og viðbrögð við þeim eru farin að hríslast um allt þjóðfélagið.”

Frá fundinum í Grósku.
Frá fundinum í Grósku. mbl.is/Árni Sæberg

Hefurðu ekki áhyggjur af stöðu mála?

„Ég er búinn að vera í þessu ákaflega lengi þannig að ef ég væri maður sem væri fullur af áhyggjum væri ég sennilega kominn með magasár fyrir löngu síðan,” segir Halldór og brosir.

„Það eru ofsalegar áskoranir. Þær eru stórar. Við þurfum að átta okkur á því hvernig ætlum við að forgangsraða þeim aðgerðum sem við ætlum að gera og hvernig ætlum við að bregðast við. Leiðin til að hafa ekki of miklar áhyggjur er að fókusera á verkefnið sem er fram undan og bara framkvæma það. Það hefur í raun og veru alltaf verið lausnin gegn kvíða,” bætir hann við.

Þörf á umbreytingu í efnahagslífinu

Halldór nefnir að gríðarleg umbreyting þurfi að eiga sér stað í efnahagslífinu. Venja þurfi hagkerfið af jarðefnaeldsneyti. Það sé stórt mál sem feli þó einnig í sér mikil tækifæri.

„Þetta er sennilega besta viðskiptatækifæri sem mönnum mun bjóðast að taka þátt í þeirri miklu umbreytingu sem verður að eiga sér stað,” segir hann og á við bæði hér heima og erlendis.  

Spurður út í vinnuna hérlendis við að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis segir hann að hún falli undir svokallaðar mótvægisaðgerðir stjórnvalda. Vísindanefnd meti stöðu þekkingar á málefninu en hópur á vegum umhverfisráðuneytisins fari yfir leiðir til að draga úr jarðefnaeldsneyti.

Á borðinu má sjá eintök af matsskýrslu vís­inda­nefnd­ar um lofts­lags­breyt­ing­ar.
Á borðinu má sjá eintök af matsskýrslu vís­inda­nefnd­ar um lofts­lags­breyt­ing­ar. mbl.is/Árni Sæberg

Í kynningu sinni benti Halldór á nokkur dæmi um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á náttúrufar á Íslandi:

  • Hlýnun á árunum 1900 til 2020 er um ein gráða á öld og er hún meiri að vetri til en sumri. Úrkoma hefur aukist og nokkur skyndiflóð hafa orðið vegna úrhellisrigningar, auk flóða og skriðufalla.
  • Á síðustu 100 árum hefur flatarmál jökla á Íslandi dregist saman um 19%. Haldi Parísarkomulagið mun rýrnun þeirra verða um 40 til 50%.
  • Til aldamóta getur hækkun sjávar orðið rúmir 1,2 metrar þar sem landsig er hvað mest. Á svæðum þar sem landris er mest getur orðið 1,5 metra fall á sjávarstöðu.
  • Aukin framleiðni gróðurs mun hafa jákvæð áhrif á landbúnað en fyrir sjávarútveginn eru áhrif súrnunar sjávar líklega neikvæð. Vinna þarf áhættumat fyrir sjávarútveginn í heild sinni.
Vatnajökull árið 2016.
Vatnajökull árið 2016. mbl.is/RAX

Leiðin til lausnar, að sögn Halldórs, er númer eitt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Annars þarf að aðlagast og síðan að þola afleiðingarnar. Til að tryggja að áskoranir vegna loftslagsbreytinga verði ekki meiri þarf t.d. inngrip frá stjórnvöldum.

Spurður út í það sem hann vill leggja mesta áherslu á úr skýrslunni bendir Halldór á eftirfarandi samantekt:

„Þessi skýrsla staðfestir, svo ekki verður um villst, að loftslagsbreytingar eru byrjaðar að breyta náttúrufari og lífsskilyrðum fólks á Íslandi með vaxandi áskorunum fyrir efnahag, samfélag og náttúru. Til að tryggja að þær áskoranir verði ekki meiri en við er ráðið þarf umbyltingu í lífsháttum og umgengni við náttúruna. Þar gegna stjórnvöld, atvinnulíf og stefnumótendur lykilhlutverki. Draga þarf úr losun eins hratt og unnt er og aðlaga samfélagið þannig að það ráði við álagið. Loftslagsvá er viðfangsefni samfélagsins alls og forðast þarf andvaraleysi gagnvart áhættunni.“

Halldór bætir sjálfur við: „Mitt mottó er að það er ekki eftir neinu að bíða, bara byrja strax.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka