2023 hlýjasta ár sögunnar

Árið 2023 var hlýjasta ár sögunnar, eða frá því mælingar hófust. Hlýnun jarðar nálgast 1,5 gráðu mörkin sé miðað við hitastig jarðar á seinni hluta 19. aldar.

Frá þessu Kópernikusverkefnið (C3S), sem er rekið á vegum Evrópusambandsins. 

1,5 gráðu mörkin skipta máli í viðureigninni við loftslagsvána, en viðmiðið var lykilþáttur í Parísarsamningnum frá 2015. Þar sammæltust þjóðir heims um að reyna að halda hlýnun innan þessara marka, að því er segir á vef loftslagsráðs.

Samantha Burgess, framkvæmdastjóri C3S, segir að síðasta ár hafi verið það fyrsta þar sem allir dagar mældust yfir einni gráðu heitari en var fyrir iðnbyltingu.

„Hitastigið árið 2023 fór líklega fyrir öll tímabil á síðastliðnum 100.000 árum,“ segir hún enn fremur. 

Þrátt fyrir að hlýnunin fari yfir 1,5 gráðu mörkin á þessu ári, eins og sumir vísindamenn spá, þá þýðir það ekki að markmið Parísarsáttmálans hafi mistekist. Það myndi aðeins koma í ljós fari svo að hlýnunin mælist yfir 1,5 gráðum nokkur ár í röð. Í samkomulaginu er jafnvel talað um möguleikann á að það fari aftur kólnandi í kjölfar tímabils þar sem múrinn er rofinn. 

Gróðureldar, þurrkar og hitabylgjur

Í Kanada voru gríðarmiklir gróðureldar í fyrra, miklir þurrkar í austurhluta Afríku og Mið-Austurlöndum, fordæmalausar hitabylgjur í Evrópu, Bandaríkjunum og í Kína. Þá hefur veturinn aldrei mælst hlýrri í Ástralíu og í Suður-Ameríku. 

Ed Hawkins, sem er prófessor í loftslagsbreytingum við háskólann í Reading í Bretlandi, segir að það sé viðbúið að slíkir atburðir muni versna þar til jarðarbúar hætta notkun á jarðefnaeldsneyti og ná kolefnishlutleysi.

Helstu áhrif loftslagsbreytinga eru m.a. breytingar á hitastigi jarðar, öfgar í veðurfari, bráðnun jökla, þurrkar og hækkun sjávarborðs. Jafnframt verða breytingar í höfum þar sem hafstraumar breytast, samhliða sýrustigi og seltu sem hafa mikil áhrif á búsvæði þeirra lífvera sem lifa í sjónum.

Í aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum segir m.a. að það sé brýn er að ná markmiðum Parísarsamningsins um að halda hlýnun jarðar innan við 2°C og að leitast við að halda hlýnuninni innan við 1,5°C.

„Skýrsla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC, frá 2018 dró skýrt og greinilega fram að það mun afstýra miklum búsifjum ef tekst að ná 1,5°C markinu. Ísland hefur skipað sér í hóp þeirra ríkja sem telja brýnt að takmarka hlýnun andrúmsloftsins við 1,5°C, á grunni áðurnefndrar skýrslu IPCC.“

Það er víst aðeins ein jörð. Að minnsta kosti í …
Það er víst aðeins ein jörð. Að minnsta kosti í okkar sólkerfi. Ljósmynd/Colourbox
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert