Ákvörðun forsetans „mikið reiðarslag“

Frá Alþingi. Mynd úr safni.
Frá Alþingi. Mynd úr safni. mbl.is/Heiddi

Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, kveðst vera mjög ósáttur við ákvörðun forseta Íslands um að senda Icesave-málið til þjóðaratkvæðagreiðslu. „Ég er mjög ósammála þessari ákvörðun og finnst hún mikið reiðarslag. Hún stefnir hlutum hér í mjög mikla óvissu, sem ekki sér fyrir endann á,“ sagði hann í samtali við síðdegisútvarp Rásar 2.

Róbert segir að nokkrir dagar verði að fá að líða áður en menn geti áttað sig almennilega á afleiðingum ákvörðunarinnar.

Aðspurður segir hann mikið hanga á viðbrögðum alþjóðasamfélagsins. „Við sjáum t.d. viðbrögð Hollendinga sem eru nú frekar drungaleg,“ segir hann.

Spurður nánar út í afleiðingarnar segir Róbert: „Við afgreiðum alltaf þá sem við höfum einhverntímann lánað út frá því hvernig þeir standa í skilum við sínar skuldbindingar. Og ef að það er túlkun alþjóðasamfélagsins, eins og mér sýnist nú á umfjöllun fjölmiðla erlendis, að Íslendingar standi ekki við sínar skuldbindingar, þá hefur það býsna alvarleg áhrif. T.d. á lánshæfismat ríkisins og lánshæfismat sveitarfélaga á Íslandi, og orkufyrirtækjanna svo dæmi séu nefnd.“ 

mbl.is
Loka