Formenn stjórnarflokkanna funda nú með stjórnarandstöðunni í Ráðherrabústaðnum. Þráinn Bertelsson, óháður þingmaður, segir að stjórnarandstaðan hafi verið kölluð á fund stjórnvalda til að ræða framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Stefnt sé að því að halda hana eins fljótt og auðið sé.
Hann segir ljóst að Alþingi verði kallað saman fyrr en til hafi staðið.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að þing geti jafnvel komið saman aftur á föstudaginn. Það hefur hins vegar ekki fengist staðfest.
Hann segir að stjórnvöld hafi kynnt stjórnarandstöðunni ný frumvarpsdrög að þjóðaratkvæðagreiðslu. Sigmundur Davíð fer nú á þingflokksfund Framsóknarflokksins og hann reiknar með því að samflokksmenn sínir verði jákvæðir gagnvart frumvarpinu.
Um er að ræða annað frumvarp heldur en það sem þegar er búið að leggja fram á Alþingi. Stjórnvöld leita nú liðsinnis stjórnarandstöðunnar í málinu til að greiða fyrir afgreiðslu þess.