Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði í yfirlýsingu sinni í dag þegar hann útskýrði ákvörðun sína um að synja Icesave-lögunum staðfestingar, að yfirlýsingar á á Alþingi og áskoranir sem forseta hafi borist frá einstökum þingmönnum, sýni að vilji meirihluta alþingismanna sé að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um lögin.
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram breytingartillögu við Icesave-frumvarpið, um að ríkisábyrgð vegna lánasamninganna tæki ekki gildi fyrr en búið væri að samþykkja hana í þjóðatkvæðagreiðslu.
Allir þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar, 28 að tölu, greiddu atkvæði með tillögunni. Það gerðu einnig tveir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, þau Ásmundur Einar Daðason og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.
Aðrir þingmenn VG sem og þingmenn Samfylkingarinnar og Þráinn Bertelsson, óháður þingmaður, greiddu atkvæði gegn tillögunni, alls 33. Tveir þingmenn VG, þau Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson, sögðu hins vegar bæði við atkvæðagreiðsluna, að forseti Íslands hljóti að taka alvarlega undirskriftir þeirra 36 þúsund Íslendinga sem þá höfðu óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Undirskriftir fóru yfir 60 þúsund á endanum. Ögmundur sagðist styðja, að hann styddi það að mál sem brenna á þjóðinni sem stór hluti þjóðarinnar vilji að gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu geri það.