Segja efnahagslegt svarthol blasa við

Norrænir fjölmiðlar spá ekki vel fyrir Íslandi í kjölfar þess að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, synjaði Icesave-lögunum staðfestingar í dag. Danska blaðið Berlingske Tidende segir að þessi ákvörðun gæti sent Ísland í efnahagslegt svarthol og viðskiptaritstjóri norska blaðsins Aftenposten segir  að nýr kafli sé að hefjast í íslensku sorgarsögunni.

Berlingske segir, að Ísland gæti lent á efnahagslegum vergangi. Matsfyrirtækið Standard & Poors hafi þegar gefið til kynna, að lánshæfismat Íslands verði lækkað og það muni gera landinu enn erfiðara fyrir en ella að fá fé að láani í útlöndum. Þá kunni Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að bíða með frekari lánafyrirgreiðslu til Íslands. 

Ola Storeng, viðskiptaritstjóri Aftenposten, segir við vef blaðsins, að nýr kafli sé að hefjast í hinni íslensku sorgarsögu eftir að Ólafur Ragnar vísaði lögunum til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Segir Storeng að allt standi nú fast á Íslandi og í uppsiglingu sé stjórnmálakreppa þar sem hver höndin er upp á móti annarri.  Þá sé einnig stjórnmálakreppa í samskiptum Íslands við nágrannalöndin, einkum Bretland og Holland.  Því sé ljóst að framundan sé langvinn efnahagskreppa á Íslandi því landið geti ekki aflað fjár í útlöndum.

Hann segir, að leið Íslands til Brussel hafi nú lokast og leysa verði þetta mál áður en Íslendingar geti vonast til að fá þar aðgang. Vandamálið sé að lausn sé ekki í sjónmáli og erfitt að sjá hvernig hægt verði að komast út úr þessari kreppu.

Vefur Aftenposten

Vefur Berlingske Tidende

mbl.is

Bloggað um fréttina