Undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu

Jóhanna Sigurðardóttir ræðir við fréttamenn eftir þingflokksfund Samfylkingarinnar.
Jóhanna Sigurðardóttir ræðir við fréttamenn eftir þingflokksfund Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði eftir þingflokksfund Samfylkingarinnar, að nú væri fyrir höndum að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin, sem forseti Íslands synjaði staðfestingar í dag.

Aðspurð hvort stjórnarsamstarfið væri í hættu sagðist hún ekki vita til þess.

„Við erum að fara yfir þessa stöðu sem upp er komin frá margvíslegum hliðum,“ sagði Jóhanna áður en hún fór á fund með fulltrúum Seðlabankans og svo með aðilum vinnumarkaðarins sem komu að stöðugleikasáttmálanum. „Síðan munum við meta framhaldið.“

Aðspurð kvaðst Jóhanna ekki vita hvort Alþingi verður kallað saman fyrr en til stóð, þann 26. janúar næstkomandi. „Við erum að ganga í það sem verður að gera, undirbúa þjóðarakvæðagreiðslu, og allt tekur það tíma - að ákveða með þinginu og stjórn þingsins hvenær það verður gert.“

Jóhanna taldi að samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé ekki í hættu. Hún var ekki búin að tala við Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formann VG, eftir fund hans með þingflokki VG. Jóhanna kvaðst ekki eiga von á neinu óvæntu þar.

Jóhanna sagði, að þau hefðu miklar áhyggjur af því að efnahagsáætlunin væri í miklu uppnámi. Þess vegna muni ráðherrar nú eiga fund með fulltrúum Seðlabankans. „Við erum að fá skilaboð erlendis frá sem við tökum alvarlega. Ég held að við þurfum að fara yfir hvaða áhrif það hefur að setja efnahagsáætlunina í uppnám í einhverjar vikur.“

Jóhanna sagði, að hörð viðbrögð erlendis frá við ákvörðun forseta Íslands kæmu ekki sérstaklega á óvart. „En við höfum alla tíð sagt að við myndum standa við okkar skuldbindingar," sagði Jóhanna. „Út af fyrir sig hafa stjórnarflokkarnir gert það vegna þess að við náðum málinu í gegnum þingið. Síðan hefur forsetinn þennan málskotsrétt sem hann nýtti sér. Við því er ekkert að gera.“

Jóhanna sagði enn fremur að ríkisstjórnin hafi sent erlendum og innlendum fjölmiðlum tilkynningu þar sem fram kæmi að  ríkisstjórnin myndi gera allt sem í hennar valdi stæði til að standa við skuldbindingar sínar.

mbl.is

Bloggað um fréttina