Áætlað er að kostnaður við þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin verði um 230 milljónir króna. Kemur það fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarpið.
Í umsögn fjárlagaskrifstofu um frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur sem ríkisstjórnin endurflutti á haustþingi var áætlað að kostnaður næmi 160 milljónum kr.
Við nánari skoðun, í tengslum við frumvarpið um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna Icesave-laganna, sá skrifstofan að kostnaður var vanáætlaður. Alþingiskosningarnar vorið 2009 kostuðu um 230 milljónir og telur fjárlagaskrifstofan að kostnaður við þjóðaratkvæðagreiðsluna nú gæti orðið svipaður.