Frjálslyndir fagna þjóðaratkvæðagreiðslu

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Framkvæmdastjórn Frjálslynda flokksins fagnar því að þjóðin fær tækifæri til þess að kjósa um mál sem varðar framtíð hennar um áratugi. Stjórnmálamenn á alþingi eiga að stíga skrefið til fulls og semja lög sem gefa þjóðinni rétt til þess að kveða upp sinn dóm í umdeildum málum, að því er segir í ályktun frá framkvæmdastjórn Frjálslynda flokksins.
„Það á meðal annars við um íslenska kvótakerfið.
Allir stjórnmálaflokkar hafa á undaförnum árum lagt til, meðal annars í stjórnarskránefnd, að þjóðaratkvæðagreiðslur væru viðhafðar í auknum mæli, enda þjóðaratkvæðagreiðslur góður mælikvarði á lýðræðislegan vilja þjóðarinnar.
Þau auknu lýðréttindi ber að virða.
Það er óþolandi ósiður margra stjórnmálamanna hér á landi, að vera með hótanir um stjórnarslit ef framkvæma á þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeild mál.
Framkvæmdastjórn Frjálslynda flokksins telur eðlilegt þegar mál eru svo umdeild sem Icesave málið hefur verið, að forseti Íslands taki ákvörðun um að vísa slíku máli til þjóðarinnar. Íslendingar eru hvattir til að sýna vilja sinn í verki með mikilli þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem væntanleg er."

mbl.is