„Ákvörðun forseta er mjög pólitísk, það þýðir ekkert fyrir forsetann að segja neitt annað. Það er stórpólitískt að vísa máli til þjóðarinnar sem meirihluti þingsins hefur samþykkt," sagði Eiríkur Tómasson, prófessor á málstofu HÍ í dag. Hann sagði ekki óeðlilegt að við slíkar aðstæður felldi meirihlutinn lögin úr gildi.
Eiríkur lagði jafnframt áherslu á að mikilvægt væri að íslensku stjórnarskránni verði breytt þannig að unnt verði að vísa tilteknum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann gerði það að umtalsefni að oft væri nú rætt um gjána á milli þings og þjóðar, en hinsvegar sé ekki óeðlilegt að slík gjá myndist, t.d. þegar taka þarf ákvarðanir um almannahag sem ekki séu vinsælar meðal kjósenda, s.s. um hækkun skatta.
„Svo vil ég nefna dæmi um mál sem ég hef lengi haft áhyggjur af, svokölluðu kvótamáli," sagði Eiríkur. Það hafi sýnt sig að allt að 80% þjóðarinnar séu andvíg því kerfi sem nú ríki og því hafi í kvótamálinu ríkt langvarandi gjá á milli þings og þjóðar sem nauðsynlegt sé að finna lausn á sem meirihluti þjóðarinnar geti sætt sig við. „Ég held að þegar kemur upp svona langvarandi gjá á milli þings og þjóðar þá sé vá fyrir dyrum í lýðræðisríki eins og Íslandi, svo ég nefni eitt dæmi."
Bæði Eiríkur og Björg Thorarensen lagaprófessor nefndu á málþinginu þá leið að minnihluti þingmanna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkt ákvæði gæti verið þinginu, bæði minnihluta og meirihluta, mikið aðhald. Í stjórnarfrumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslu sem nú er til skoðunar hjá allsherjarnefnd er ekki kveðið á um þá leið, en í frumvarpi stjórnarandstöðunnar sem Þór Saari mælti fyrir er hinsvegar gert ráð fyrir að þriðjungur þingmanna geti knúið fram þjóðaratkvæði.
Þau Björg og Eiríkur voru bæði sammála um að þjóðaratkvæðagreiðsla geti við ákveðnar aðstæður verið mikilvægur vettvangur kjósenda til að koma skoðun sinni á framfæri, en að varhugavert sé hinsvegar að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvers kyns mál í tíma og ótíma.