Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði á málstofu sem um beint lýðræði eða fulltrúalýðræði sem haldin var í Háskóla Íslands í hádeginu í dag, að hann teldi mál eins og Icesave ekki henta vel til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Gunnar Helgi benti á að atkvæðagreiðslan væri ýmsum vandkvæðum bundin þar sem flókið sé eða ómögulegt að sameina vilja allra einstaklinga þjóðfélagsins. „Það getur auðvitað verið einfalt ef allir eru fullkomlega sammála, þá getum við sagt að það sé skýr þjóðarvilji, en það gerist næstum því aldrei."
Þegar talað sé um vilja þjóðarinnar séu mörkin almennt dregin við skoðun meirihlutans, þannig sé ekki gert upp á milli atkvæða. „Samt er það svo að meirihlutaviljinn er ekki vilji allra, það er mikilvægt að hafa það í huga. Er hægt að tala um þjóðarvilja þegar hluti þjóðarinnar er á móti?"
Gunnar Helgi benti einnig á að jafnvel þótt meirihluti fengist í atkvæðagreiðslu lýsti það ekki endilega vilja meirihluta þjóðarinnar. Miklu máli skipti hvernig málið sé sett upp og á bak við einfalda spurningu með svarinu já eða nei geti í reynd leynst fleiri spurningar sem geti kallað fram þversagnakennda niðurstöðu. Almennt sé það mjög vond aðferð að láta einfaldan meirihluta ráð niðurstöðu í slíkri atkvæðagreiðslu. „Hættan við að miða við einfaldan meirihluta er að hægt er að kljúfa þá sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni og fá þá niðurstöðu sem hentar þeim sem boðar til atkvæðagreiðslunnar."