Ríkisstjórnin hefur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave-skuldbindingarnar muni fara fram 6. mars nk. Þann 28. janúar hefst utankjörfundaratkvæðagreiðsla. Þetta var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Ragna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra, hefur í samráði við landskjörstjórn ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram 6. mars nk. um framtíðargildi laga um heimild til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands, að því er fram kemur í tilkynningu.
Alþingi samþykkti lögin en forseti synjaði þeim staðfestingar. Því ber að leggja lögin undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu.
Kosningarrétt við þjóðaratkvæðagreiðsluna hafa þeir kjósendur sem hafa kosningarrétt til Alþingis. Þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram á sömu kjörstöðum og notast er við í almennum kosningum. Munu einstök sveitarfélög auglýsa nánar um kjörstaðina samkvæmt venju skömmu fyrir atkvæðagreiðsluna, m.a. hvenær þeir eru opnir, hvar þeir eru, hvernig er skipt í kjördeildir o.fl.
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst 28. janúar 2010, bæði innan lands og utan. Kjósanda sem ekki getur kosið á kjördag, er heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar frá og með þeim degi til kjördags. Hægt er að kjósa hjá öllum sýslumönnum á landinu, á aðalskrifstofum eða í útibúum þeirra.
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar á erlendri grundu hefst sama dag á vegum utanríkisráðuneytisins sem mun kynna fyrirkomulag þar að lútandi.
Þá er kjósanda, sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða er vistmaður þar, á dvalarheimili aldraðra eða stofnun fyrir fatlaða, heimilt að greiða atkvæði á stofnuninni. Með sama hætti fer um vistmann fangelsis. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar. Einnig er kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans.