Fréttaskýring: Margra vikna frestun er brot á stjórnarskrá

Pólitískt mat og vilji stjórnmálamanna ræður því, innan hóflegra en óljósra marka, hvort hægt er að fresta þjóðaratkvæðagreiðslunni um ríkisábyrgð á Icesave-samningunum, vegna annarra mála.

Rætt er um að fresta kosningunni svo hún skarist ekki við birtingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem gæti veitt nýja sýn á málið og aðdraganda þess. Alls óvíst er hins vegar hvort skýrslan varpar nýju ljósi á samningana, greiðslugetu eða skyldu ríkisins til að greiða yfirleitt.

Það ákvæði stjórnarskrárinnar sem vakið hefur hugleiðingar um lögmæti þess að fresta kosningunni er í 26. grein. Þar segir að lög sem forseti hefur synjað samþykkis skuli bera svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu.

Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, segir orðalag greinarinnar ekki svara því hvernig skuli tímasetja þjóðaratkvæðagreiðsluna út frá öðrum málum sem geta haft áhrif á hana. „Það má kannski líta svo á að ekki sé kostur á að halda kosninguna vegna einhverra aðstæðna sem eru uppi og það má endalaust velta slíkum aðstæðum fyrir sér. Ég fæ ekki séð að það væri brot á stjórnarskránni,“ segir Björg.

Þungvæg rök þarf til að fresta

„Ef menn telja ástæðu til að fresta kosningunni þurfa að vera mjög þungvæg rök sem liggja þar að baki. Eitt af því sem skiptir máli er að menn gangi upplýstir til kosningarinnar. Það getur verið réttlætanlegt að fresta þessu í mjög skamman tíma til viðbótar, en ég held að menn verði að fara mjög varlega í slíka frestun. Ég tel að það væri augljóst brot á stjórnarskrá ef menn vildu fresta þessu um margar vikur til viðbótar,“ segir Eiríkur.

Ein vika til eða frá innan marka

Aðspurð segir hún erfitt að leggja lögfræðilegt mat á hvort sé betra, að fresta birtingu skýrslunnar fram yfir kosningar, eða að fresta kosningunum. Það sé einfaldlega háð mati stjórnvalda. Eiríkur Tómasson er á sama máli um það.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina