Allra augu verða á Íslandi, segir í grein sem birtist á vef írska blaðsins Irish Times í dag. Er þar vísað til þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fyrirhugað er að halda þann 6. mars næstkomandi vegna Icesave-samkomulagsins. Segir í greininni að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hafi ákveðið að vísa ákvörðuninni til þjóðarinnar en að endurgreiðslan geti skaðað efnahag landsins í áratugi.
Fundað með Bretum og Hollendingum í dag
Formenn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks héldu í gær utan til að eiga fund með fulltrúum breskra og hollenskra stjórnvalda um Icesave.
Mikil leynd hvílir á ferðinni en Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, sagði í gær að tækifæri hefði boðist fyrir fundi með háttsettum embættismönnum ytra.
Frekar væri um að ræða upplýsingafund en samningafund en að öðru leyti vildi Árni Þór ekki tjá sig um málið eða það hvort fundað yrði bæði í Bretlandi og Hollandi fyrir heimkomu í kvöld. Samkvæmt heimildum blaðsins mun m.a. standa til að funda með Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands.
Þá var rætt um það á fundi formanna flokkanna í stjórnarráðinu í fyrrakvöld að lögð skyldi áhersla á að ná niður vöxtum á Icesave-lánunum, skv. sömu heimildum.
Þá herma heimildir blaðsins að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi fallist á að fara í ferðina með Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra á þeim forsendum að það væri á hreinu gagnvart ríkisstjórninni að þeir myndu ekki hvika frá fyrri afstöðu í þá veru að lagalegar skuldbindingar Íslands væru enn óljósar og að gengið yrði til nýrra samninga með það að leiðarljósi að íslenskur efnahagur myndi ekki sligast vegna Icesave.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði það sæta furðu að fulltrúa hennar hefði ekki verið boðið með.
Íslenska þjóðin sem þarf að bera byrðarnar af Icesave
Irish Times hefur eftir Ólafi Ragnari að Ísland muni endurgreiða en það fari eftir þeim skilyrðum sem fylgja og áhættunni en blaðið ræddi við hann í Davos í Sviss þar sem forseti Íslands situr ráðstefnu um efnahagsmál heimsins.
Ólafur Ragnar bendir blaðamanni Irish Times á það hve fjárhæðin er há miðað við höfðatölu. Það séu íslenskir bændur, sjómenn, hjúkrunarfræðingar og kennarar sem þurfi að bera byrðarnar í mörg ár, jafnvel áratugi af starfsemi eins banka utan Íslands, segir hann. Einhver hluti fjárhæðarinnar muni endurheimtast með sölu eigna Landsbankans en mikil óvissa ríki um hve há fjárhæðin verði.
Ólafur Ragnar segir í viðtalinu að ríkisstjórn Íslands verði að grípa til ákveðinna aðgerða til þess að koma á stöðugleika í bankakerfinu og þar með koma í veg fyrir að óeirðir brjótist út að nýju. Hins vegar verði aðgerðirnar að vera af þeim toga að almenningur skilji þær og ekki bara það heldur styðji þær einnig.
Í greininni er fjallað um þá reiði sem greip um sig meðal almennings vegna Icesave og segir Ólafur Ragnar að greiðslan sé svo gríðarlega há að það geti haft mikil áhrif á efnahag Íslands í framtíðinni.
Þetta bætist við þær byrðar sem íslenska þjóðin þarf þegar að bera, segir Ólafur Ragnar. Svo sem atvinnuleysi, tapaðan sparnað, hærri skatta. Auk kostnaðar vegna hrunsins og hærri framfærslu vegna hruns krónunnar.
Forseti Íslands bendir á að sjávarútvegurinn hafi átt gott ár að baki og að hæfileikaríkt fólk sem áður starfaði í fjármálageiranum hafi fundið nýjan farveg fyrir hæfileika sína. „Fjármálageirinn varð of stór - hann hindraði vöxt annarra greina," segir Ólafur Ragnar í viðtali við Irish Times.