Umboðsmaður mun fylgjast með kynningarefni

Umboðsmaður Alþingis mun fylgjast með því á næstu dögum og vikum hvort og þá hvernig háttað verði kynningarstarfsemi stjórnvalda í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 6. mars um Icesave-lögin.

Þetta kemur fram í bréfi sem umboðsmaður hefur sent Sambandi ungra sjálfstæðismanna, en sambandið leitaði til umboðsmanns og vakti athygli hans á ummælum sem fjármálaráðherra á að hafa látið falla í útvarpsviðtali um að „kostnaður vegna kynningar á rökstuðningi ríkisstjórnar [yrði] greiddur úr ríkissjóði, umfram það óháða kynningarefni sem kostað [væri] þaðan sömuleiðis“.

Í bréfinu segir Róbert Spanó, sem gegnir embætti umboðsmanns Alþingis nú, að sér sé ekki kunnugt um það á þessu stigi hvort ákvarðanir hafi verið teknar af hálfu stjórnvalda um hvort og þá hvernig slíkt kynningarefni muni líta út eða hvaðan fjármunir til að fjármagna það verði fengnir. Því telji hann ekki ástæða til að hefja athugun á þessu atriði að eigin frumkvæði en muni fylgjast með því á næstu dögum og vikum hvort og þá hvernig háttað verði kynningarstarfsemi stjórnvalda í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina