Breski sendiherrann á Íslandi tjáði bandarískum starfsbróður sínum fyrir mánuði að bresk stjórnvöld gætu fallist á leiðir sem kæmu í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave.
Þetta kemur fram í minnisblaði úr bandaríska sendiráðinu sem fréttastofa RÚV sagði frá í gærkvöldi og birt var á vefsvæði Wikileaks. Þar kemur einnig fram að Íslendingar hafi leitað eftir stuðningi Bandaríkjamanna.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að frásögn af þessum fundum væri í takt við annað sem hann hefði séð. Það væri ekki mikil reisn yfir þessu fyrir utanríkisþjónustuna og bæri vott um vissa örvæntingu.
Hann sagðist ekki geta séð hvernig það gæti sett okkur í verri stöðu ef þjóðarviljinn fengi að koma fram í þessu máli frekar en að ríkisstjórnin næði fram sínum vilja.
Í minnisblaðinu fjallar Sam Watson, sendifulltrúi, m.a. um fund sem hann átti með Einari Gunnarssyni, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, og Kristjáni Guy Burgess, aðstoðarmanni utanríkisráðherra. Segir Watson að þeir Einar og Kristján hafi lýst efnahagslegum hörmungum ef Icesave málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu og yrði fellt.
Þá segir Watson einnig frá fundi með Hjálmari W. Hannessyni, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Hjálmar sagði á fundinum að stjórnarkreppa yrði á Íslandi ef þjóðin felldi Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hjálmar sagðist þekkja Ólaf Ragnar Grímsson vel og sagði að hann væri óútreiknanlegur.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði í gærkvöldi að íslensk stjórnvöld hefðu átt fundi með mörgum ríkjum til að kynna málsstað Íslands og leita eftir liðsinni vinaþjóða í Icesave-deilunni.
„Við höfum ekki verið að skafa utan af því sem okkur finnst í þessum efnum. Við höfum komið okkar sjónarmiðum skýrt á framfæri um að við viljum fá stuðning annarra ríkja, þar á meðal Bandaríkjanna. Við höfum sagt að hlutleysi er ekki valkostur í þessari stöðu."