Sama aðferð og í þorskastríðunum

Eiríkur Bergmann Einarsson.
Eiríkur Bergmann Einarsson.

Eiríkur Bergmann Einarsson, dósent við háskólann á Bifröst, segir við norska blaðið Aftenposten í dag, að stemmningin á Íslandi nú, fjórum dögum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin, sé sú að Íslendingar vilji frekar herða sultarólina í eitt ár en greiða Bretum og Hollendingum penní eða sent vegna Icesave. 

Þá segist Eiríkur tekja, að Icesave-málið sé að fara inn í hefðbundinn íslenskan farveg íslenskra utanríkismála.

„Íslendingar börðust fyrir sjálfstæði frá Dönum á afar líkan hátt. Með því að halda út í langan tíma og gefa aldrei eftir og á endanum vannst sigur. Það sama gerðist í þorskastríðunum við Bretland á sjötta og áttunda áratug síðustu aldar.  Íslendingar bökkuðu aldrei og héldu út þar til Bretar gáfu eftir. Íslendingar geta rekið þetta mál áratugum saman ef svo ber undir," hefur Aftenposten eftir Eiríki.

Í viðtalinu segir Eiríkur einnig, að óljóst sé hvort íslenska ríkisstjórnin lifi Icesave-málið af en stjórnin verði veikari og veikari með hverjum deginum sem líður. 

Frétt Aftenposten

mbl.is