Sendi skýr skilaboð með þjóðaratkvæðagreiðslu

Pistlahöfundur Bloomberg telur Íslendinga eiga að senda umheiminum skýr skilaboð.
Pistlahöfundur Bloomberg telur Íslendinga eiga að senda umheiminum skýr skilaboð. Ómar Óskarsson

Íslenskir kjósendur eiga að senda heimsbyggðinni skýr skilaboð með þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-samninginn næst komandi laugardag, segir Matthew Lynn, dálkahöfundur hjá Bloomberg fréttaveitunni. Þjóðin eigi einfaldlega að segja: „Við getum ekki borgað, við viljum ekki borga, þannig að þið getið átt ykkur.“

Enginn ástæða sé enda til að endurgreiða féð. Almenningur hafi ekki stofnað til skuldanna, ríkisstjórnir Bretlands og Hollands beri ábyrgð á gallaðri reglugerð, erlendu viðskiptavinir bankans hafi verið gráðugir og heimskir og  þá kunni greiðsla skuldarinnar að reynast komandi kynslóðum þungbær. 

„Hafni Íslendingar Icesave-samningunum þá sendi þeir skilaboð sem skattgreiðendur í mörgum ríkjum hafi fulla samúð með: Við ætlum ekki alltaf að greiða skuldir bankamanna,“ segir Lynn.

Vissulega séu viss rök fyrir því að greiða skuldina. Það sé almennt góð regla að greiða skuldir sínar og það muni reynast Íslandi dýrkeypt að gera það ekki. Lánstraust landsins muni líða verulega fyrir og hætta sé á að lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verði ekki greidd út. Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu gæti líka liðið fyrir slíka ákvörðun þar sem ríkisstjórnir Hollands og Bretlands ættu erfitt með að samþykkja inngöngu ríkis sem þær teldu skulda sér hundruð milljarða króna. 

Engu að síður telur Lynn fjórar góðar ástæður fyrir því að kjósendur eigi að segja nei.

„Í fyrsta lagi stofnaði íslenskur almenningur ekki til skuldanna, heldur einungis nokkrir óábyrgir bankamenn sem tóku alltof mikla áhættu. Almenningur átti ekki færi á að kjósa um útrás bankanna og hví ætti lítill hópur fjármálamanna að búast við því að hópur vinnusamra einstaklinga hreinsi upp eftir þá? Enginn getur haldið því fram að íslenskur almenningur hafi lofað að styðja bankana.“

Í öðru lagi liggi ábyrgðin ekki síður hjá ríkisstjórnum Hollands og Bretlands. Þær hafi heimilað íslensku bönkunum að starfa í löndunum og reglugerðir hafðu geta verið mun strangari er kom að því hvernig íslensku bankarnir gátu markaðssett vexti sína. Það hafi líka verið ákvörðun stjórnvalda þessara ríkja að bæta viðskiptavinum bankanna féð sem þeir töpuðu við fall þeirra. Og „ef bresk og hollensk stjórnvöld bera hluta ábyrgðarinnar þá er enginn ástæða fyrir því að þær beri ekki hluta kostnaðarins.“ 

Í þriðja lagi beri viðskiptavinir bankanna einnig ábyrgð. Þeir hafi ákveðið að leggja fé sitt inn í banka sem greiddi hærri vexti en flestir aðrir bankar. Ekki þurfi neinn snilling til að átta sig á því að hærra endurgjaldi fylgi aukin áhætta. Þeir hafi einfaldlega tekið heimskulega áhættu með því að leggja fé  inn í bankana og enginn ástæða sé fyrir því að verja þá fyrir eigin dómgreindarskorti. Í ofanálag hafi flestir þeirra líka verið töluvert efnaðri en sá almenningur sem greiða á reikninginn. „Hvers vegna ætti sómakær almenningur að greiða reikninginn fyrir gráðugt efnafólk?“

Lokaástæðan sé svo einfaldlega sú að greiðsla Icesave-skuldarinnar sé of íþyngjandi. Kostnaðurinn nemi rúmlega þremur milljónum kr. á hvern Íslending, sem sé veruleg byrði fyrir íbúa ríkis sem þegar hafi farið illa út úr kreppunni. Ísland þurfi alla þá fjármuni sem það hafi aflögu til að koma hagkerfinu í lag.

Raunveruleikin sé að íslenska þjóðaratkvæðagreiðslan sé einkar mikilvæg. „Ríkisstjórnir víðsvegar um heim hafa keypt þá hugmynd að skattgreiðendur eigi að bæta tap banka. Það er slæm meginregla.

Íslendingar eiga að senda skýr skilaboð. Við bjuggum ekki til vandann og það er enginn ástæða til að almenningur borgi hann. Skattgreiðendur sem nú eru að fá reikninginn fyrir banka sem bjargað var í Bretlandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum og víðar gætu viljað feta í fótspor þeirra gefist þeim færi á að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Lynn.

mbl.is