Fréttaskýring: Þjóðaratkvæði í skugga óvissu

Mikill meirihluti myndi segja nei
Mikill meirihluti myndi segja nei

Undirbúningur undir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesavelögin hefur farið fram í skugga samningaviðræðna við Breta og Hollendinga um nýjan samning.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa slegið í og úr með það hvort atkvæðagreiðslan væri til nokkurs og færi yfirleitt fram. Nokkrar úrslitastundir hafa verið boðaðar og þegar þetta er skrifað er sú síðasta að nálgast.

Þeir sem vinna að framkvæmd atkvæðagreiðslunnar lögðu af þessum ástæðum ekki fullan kraft í undirbúninginn fyrr en í síðustu viku. Þá var ákveðið að gera ráð fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðslan færi fram, Þangað til annað kæmi í ljós.

Aldrei reynt á ákvæðið

Þjóðaratkvæðagreiðslan snýst um það hvort þjóðin samþykki eða synji lögum um ríkisábyrgð á Icesave- skuldbindingum Landsbankans sem meirihluti Alþingis samþykkti undir lok síðasta árs en forseti Íslands neitaði að staðfesta og vísaði þar með til þjóðarinnar.

Á fyrri hluta 20. aldar var fimm sinnum efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var ýmist gert vegna fyrirmæla í stjórnsýslulögum eða til að kanna afstöðu þjóðarinnar til tiltekinna mála þar sem niðurstaða var ráðgefandi. Aldrei hefur reynt á ákvæði stjórnarskrárinnar sem kveður á um að lög sem forseti synjar staðfestingar verði borin undir þjóðina. Fjölmiðlalögin sem forseti synjaði staðfestingar 2004 voru dregin til baka.

Ekki eru til lög um þjóðaratkvæðagreiðslur og því setti Alþingi sérstök lög í byrjun ársins um framkvæmd Icesave-atkvæðagreiðslunnar. Þar kemur fram að hún skuli fara fram svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 6. mars. Dómsmálaráðherra valdi þann dag.

Kjörseðlar til kjördeilda

Um kosningarétt og kjörskrá fer á sama hátt og við alþingiskosningar. Liðlega 230 þúsund eru á kjörskrá, tveimur þúsundum fleiri en við alþingiskosningarnar á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum Hjalta Zóphóníassonar, skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu.

Mörk kjördæma, kjörstaðir og kjördeildir eru þær sömu og í síðastliðnum alþingiskosningum. Kjördæmin eru sex. Kjörstaðir verða 146 en þar sem fleiri en ein kjördeild verður í stærri sveitarfélögum verða kjördeildirnar fleiri eða 269 samtals. Dómsmálaráðuneytið hefur látið prenta kjörseðla og komið þeim út til yfirkjörstjórna í kjördæmunum. Þær eru þessa dagana að senda kjörseðla og önnur gögn til kjördeildanna. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst 28. janúar og hafa á þriðja þúsund kjósendur greitt atkvæði. Það er færra en við alþingiskosningar.

Landskjörstjórn skipaði í gær umboðsmenn fyrir báðar fylkingar hjá öllum yfirkjörstjórnum, alls tólf. Þeir eiga meðal annars að gæta þess að rétt sé staðið að úrskurði um vafaatkvæði.

Bæklingar í öll hús

Þjóðaratkvæðagreiðslan er kynnt á vefnum thjodaratkvaedi.is og þessa dagana er verið að bera kynningarbækling inn á öll heimili. Sveitarfélögum ber að tryggja húsnæði til að kjósa í og útvega starfsmenn í kjörstjórnir og einstakar kjördeildir. Búast má við því að hálft annað þúsund starfsmanna vinni við framkvæmd kosninganna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka