Die Linke styðja Ísland

Andrej Hunko, þingmaður Die Linke.
Andrej Hunko, þingmaður Die Linke.

Þýski stjórnmálaflokkurinn Die Linke hefur lýst yfir samstöðu með Íslendingum vegna Icesave-málsins. Andrej Hunko, þingmaður Die Linke, stendur að yfirlýsingu ásamt alþjóðamálanefnd flokksins og öðrum þingmönnum úr röðum hans.

„Við lýsum yfir samstöðu með íslensku þjóðinni, sem berst gegn einhliða skilyrðum  á hendur Íslandi fyrir endurgreiðslu skulda til Hollands og Bretlands," segir í yfirlýsingunni. 

Þar er rakið að viðurkenna hafi átt þessar skuldbindingar með lögunum um Icesave, en „83.000 af 320.000 Íslendingum mótmæltu með undirskrift sinni". Því hafi forseti Íslands neitað að skrifa undir lögin, sem hafi kallað á þjóðaratkvæði þannig að „6. mars verði í fyrsta skipti í Evrópu kosið um það hvort almenningur eigi skilyrðislaust að axla skuldir bankakreppunnar og óháð efnahagslegrar þróunar landsins".

Síðan segir: „Við höfnum töf á aðildarviðræðum ESB við Ísland vegna þjóðaratkvæðisins alfarið. Við vísum á bug öllum tilraunum tilað tengja upphaf aðildarviðræðna við skilyrðislausa greiðslu skulda Íslands. Við lýsum yfir samstöðu með íslensku þjóðinni, sem er ekki tilbúin til að borga bankaskuldirnar í samræmi við þvingaða skilmála."

Andrej Hunko hefur áður tjáð sig um Icesave og sagt að það væri gott ef Íslendingar ákvæðu að borga ekki skuldir banka og spekúlanta.„Við ættum að fylgja fordæmi þeirra," segir hann. Hunko er væntanlegur til Íslands með þýskri þingmannanefnd 11. og 12. mars. 

mbl.is