Ríflega 11 þúsund hafa kosið

Biðröð var í Laugardalshöll í dag.
Biðröð var í Laugardalshöll í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Alls höfðu 11.119 manns greitt atkvæði utan kjörfundar í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave lögin um kl. 16.30 í dag. Að sögn Bergþóru Sigmundsdóttur deildarstjóra hjá sýslumannsembættinu  í Reykjavík, höfðu alls 6.807 manns kosið í Laugarhaldshöllinni. Segir hún mikinn og stöðugan straum fólks hafa legið í Laugardalshöllina í dag og reglulega myndast meira en hálftíma löng biðröð, sem sé svipað og undanfarin ár á sama tíma.

Hægt verður að greiða atkvæði utan kjörfundar til kl.  22 í kvöld og á morgun verður opið í Laugardalshöllinni milli kl. 10-18 á morgun. Utankjörfundaratkvæðagreiðslan í Laugardalshöll á morgun er þó einungis í boði fyrir þá sem eiga um langan veg að fara í sína kjördeild.

Mun færri hafa kosið utan kjörfundar nú heldur en á sama tíma fyrir þingkosningarnar árin 2007 og 2009. Í gær höfðu 5.776 kosið utan kjörfundar í Reykjavík. Á fimmtudegi fyrir kosningarnar í fyrra höfðu 10.882 kosið utan kjörfundar og 10.318 á fimmtudegi fyrir kosningarnar 2007.


Ýmsar skýringar geta verið á minni kjörsókn, s.s. minni áhugi og að valkostirnir séu ekki eins skýrir í hugum kjósenda. Einnig getur spilað inn í að minna er um ferðalög í byrjun mars en á vorin, þegar kosningar eru alla jafnan haldnar. Þá hefur utankjörfundaratkvæðagreiðslan verið í boði í skemmri tíma. Fyrir þing- og sveitastjórnarkosningar er byrjað að greiða atkvæði utan kjörfundar átta vikum fyrir kjördag. Nú hófst utankjörfundaratkvæðagreiðslan þann 25. janúar, þ.e. tæplega sex vikum fyrir kjördag.



mbl.is

Bloggað um fréttina