Ef niðurstaðan verður nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni þá getur það haft áhrif á stöðu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, samkvæmt frétt írska dagblaðsins Irish Times í dag. Þar kemur fram að Íslendingar setji endurreisn efnahagslífsins í hættu.
Segir blaðið að Íslendingar virðist þrátt fyrir þetta ætla að greiða nei atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun.
Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur, segir í samtali við Irish Times að meðal ástæðna fyrir því að Íslendingar gefi sig ekki sé hegðun Gordons Brown, forsætisráðherra Bretlands. Neitun sé skýr skilaboð til Brown, segir Eiríkur.
Hann segir að Íslendingar hafi búið við þetta ástand í átján mánuði og lífið haldi áfram þrátt fyrir það. Íslendingar ferðist lítið til útlandi en fleiri fari á veitingastaði í Reykjavík.
Tekið er fram í fréttinni að Íslendingar vilji standa við skuldbindingar sínar en þær þurfi að vera sanngjarnar.