Steingrímur: Ólíklegt að ég kjósi

Hvorki Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, né Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, gera ráð fyrir því að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin á morgun. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að viðræður haldi áfram við Breta og Hollendinga eftir helgina en íslenska samninganefndin kemur heim í dag.

Steingrímur sagði aðspurður við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í morgun, að ólíklegt væri að hann myndi kjósa í atkvæðagreiðslunni. Jóhanna sagðist ekki ætla að fara á kjörstað.

Jóhanna sagði ljóst, að engin niðurstaða fengist í viðræðum við Breta og Hollendinga fyrir atkvæðagreiðsluna. Bilið milli deiluaðila hefði hins vegar minnkað og nokkur árangur hefði náðst.

Steingrímur sagði, að það væri vilji Íslendinga að halda áfram viðræðum en ekki hefði komið staðfesting á því frá Bretum og Hollendingum. Hann sagði að einhver samskipti hefðu verið milli aðila í morgun en samninganefndin kemur væntanlega heim í dag. Þau Steingrímur og Jóhanna lögðu áherslu á að ekki hefði slitnað upp úr viðræðunum.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
mbl.is

Bloggað um fréttina