Að kjósa eða ekki kjósa

Fólk bíður þess að geta kosið í Laugardalshöll í gær.
Fólk bíður þess að geta kosið í Laugardalshöll í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor, segist í samtali við norska fréttavefinn ABC Nyheter  ekki ætla að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin í dag. „Það er mín ráðlegging: Sitjið heima," hefur vefurinn eftir Þórólfi. Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur og alþingismaður, hvetur fólk hins vegar til að mæta á kjörstað og segir góða kjörsókn mikilvæga.

Þórólfur segir að það væri þýðingarlaust að segja já við lögunum í ljósi þess að þegar liggi fyrir tilboð sem sé betra en samningurinn sem þau ganga út frá. „Og hvað gerist ef lögin verða felld?" spyr hann. 

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, hafa látið svipaðar skoðanir í ljós og ætla ekki að kjósa í dag. Magnús Árni Skúlason, einn af forsvarsmönnum InDefence, gagnrýnir þetta viðhorf í samtali við ABC. „Það má aldrei halda því fram að lýðræði sé merkingarlaust," segir hann.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, segist einnig alfarið ósammála því að fólk eigi að sitja heima.  Hún segir einnig mikilvægt að kjörsókn verði góð, ella verði hægt að túlka kosninguna þannig, að fólk vilji ljúka málinu hvað sem það kostar. 

„Ég veit að það er erfitt að gera samninga við Breta. Þeirra aðferð er alltaf að reka andstæðinginn út að brúninni til að sjá hvar brúnin er. Ég vil að við gerum það andstæða með þessari þjóðaratkvæðagreiðslu," segir hún.

Frétt ABC Nyheter

mbl.is

Bloggað um fréttina