Jóhanna: Kom ekki á óvart

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ernir

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði við Ríkissjónvarpið að ekkert kæmi á óvart við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Bæði hefði þátttakan og niðurstaðan verið fyrirséð. Icesave-lögin hefðu í raun verið fallin úr gildi og atkvæðagreiðslan staðfesti það.

Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sögðust ekki telja að niðurstaðan hefði áhrif á stjórnarsamstarfið.

Steingrímur  sagði að þessi úrslit hefðu ekki komið á óvart enda enginn málflutningur verið fyrir annarri niðurstöðu. Fyrir dyrum hefði staðið að fella Icesave-lögin úr gildi með nýrri samningsniðurstöðu. Í raun væri merkilegt hve margir sögðu já í atkvæðagreiðslunni. 

Hann sagði að Icesave-málið væri enn óleyst þrátt fyrir þessa niðurstöðu og nú þyrfti að vinna að henni. Steingrímur upplýsti jafnframt, að hann hefði ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslunni í dag. Jóhanna, sem hafði áður lýst því yfir að hún ætlaði ekki að kjósa, sagðist ekki sjá eftir þeirri ákvörðun. 


mbl.is