Ólafur Ragnar búinn að kjósa

Ólafur Ragnar Grímsson greiddi atkvæði í Grunnskóla Álftaness á ellefta …
Ólafur Ragnar Grímsson greiddi atkvæði í Grunnskóla Álftaness á ellefta tímanum. mbl.is/Kristinn

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, greiddi atkvæði sitt í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin í grunnskóla Álftaness nú á ellefta tímanum. Hann var á kjörstað spurður á hvorn veginn hann hefði kosið en sagði við bæði íslenska og erlenda fjölmiðlamenn að hann hygðist ekki gefa það upp.

 Minnti hann á að íslensk lög kvæðu á um það að óheimilt væri að gefa það upp á kjörstað. 

Ólafur Ragnar sagði við Morgunblaðið í dag, að hann vildi ekki svara sjónarmiðum þeirra sem segja þjóðaratkvæðagreiðsluna vera marklausa, en bætti við: „Ákvörðunin um þjóðaratkvæðagreiðslu hefur þegar skilað því að Bretar og Hollendingar hafa séð sig knúna til að leggja fram mun betra tilboð. En það breytir því ekki að samkvæmt íslenskri stjórnskipan felur þjóðaratkvæðagreiðslan í sér ákvörðun um það hvort Icesave-lögin, sem tóku gildi í kjölfar samþykktar Alþingis daginn fyrir gamlársdag, gildi áfram.“ 

mbl.is
Loka