Staðfest að Icesave-samningurinn var ekki réttlátur

Ólafur Ragnar Grímsson greiðir atkvæði sitt í Álftanesskóla í dag.
Ólafur Ragnar Grímsson greiðir atkvæði sitt í Álftanesskóla í dag. Reuters

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir í viðtali við AFP fréttastofuna í kvöld, að sú yfirlýsing Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að hún ætlaði ekki að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni í dag, kunni að vera diplómatísk aðferð hennar til að staðfesta, að Icesave-samningurinn hafi ekki verið réttlátur.

„Þetta var hennar ákvörðun," segir Ólafur Ragnar þegar Svanborg Sigmarsdóttir, fréttamaður AFP, ber undir hann yfirlýsingar Jóhönnu um að hún ætlaði ekki að greiða atkvæði vegna þess að þjóðaratkvæðagreiðslan væri marklaus.  

„En ég held, að með ákveðnum hætti... hafi þetta verið diplómatísk aðferð hennar til að staðfesta, að samningurinn sem Bretar og Hollendingar þvinguðu Íslendinga til að gera á síðasta ári hafi ekki verið réttlátur.  

Eitt af því sem þjóðaratkvæðagreiðslan náði fram, jafnvel áður en hún fór fram, var að staðfesta að allir aðilar, þar á meðal Hollendingar og Bretar, viðurkenna nú að samningurinn... var ekki réttlátur samningur," hefur AFP eftir Ólafi Ragnari.   

Hann segir að þjóðaratkvæðagreiðslan hafi einnig vakið mikinn áhuga á skilmálum Icesave-samningsins meðal blaðamanna, sérfræðinga, fræðimanna og annarra. „Niðurstaðan var að Ísland hefði góðan málstað að verja, að Bretar og Hollendingar væru að þvinga Íslendinga langt umfram það sem sanngjarnt var," segir hann.  

Ólafur Ragnar segir einnig, að þótt margir Íslendingar sætti sig við að bæta Bretum og Hollendingum það tap sem þeir urðu fyrir vegna Icesave-reikninga Landsbankans þá séu ákvæði lánasamninganna, einkum 5,5% vextirnir, talin of íþyngjandi.  

„Íslenska þjóðin, bændur, sjómenn, kennarar, hjúkrunarfólk er reiðubúin að greiða Bretum og Hollendingum jafnvirði rúmlega 20 þúsund evra vegna hvers reikningseiganda. En hún er ekki tilbúin til að greiða háa vexti svo bresk og hollensk stjórnvöld hagnist á öllu saman."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka