Stjórnarandstaðan fagnar niðurstöðunni

Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Birgitta Jónsdóttir.
Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Birgitta Jónsdóttir.

Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna fagna niðurstöðunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni í dag en yfir 90% þátttakenda höfnuðu þar Icesave-lögunum sem sett voru í lok ársins.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist í samtali við Ríkissjónvarpið vera ánægður með niðurstöðuna og kjörsóknina og þau skýru skilaboð, sem fælust í atkvæðagreiðslunni. 

„Það sem er að gerast hér í dag er engin tilviljun. Það var þrotlaus barátta stjórnarandstöðunnar á síðasta ári gegn samningunum sem ríkisstjórnin mælti fyrir og barðist með kjafti og klóm fyrir að koma gegnum þingið. Nú fær þjóðin að segja sitt álit og hún fellir málið," sagði Bjarni. 

Hann sagði að ekki væri hægt að segja, að nú haldi menn bara áfram og klári málið og láti eins og ekkert hafi gerst. Nú þurfi að taka málið upp á þinginu og ríkisstjórnin geri þar grein fyrir því hvernig hún meti niðurstöðuna og hvað hún hyggist fyrir. „Við höfum átt ágætis samstarf en það hefur borið mikið á milli," sagði hann.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagðist ákaflega ánægður með úrslitin og kjörsóknina sem væri mikil miðað við þjóðaratkvæðagreiðslur.

„Það sem tekur við er vonandi það, að ríkisstjórnin fari að snúa sér að öðrum efnahagsmálum, að þeirri uppbyggingu sem beðið hefur hér á öllum sviðum," sagði Sigmundur Davíð. Hann sagði að Íslendingar væru áfram tilbúnir til að aðstoða Breta og Hollendinga við að leysa úr þessu vandamáli en þeir yrðu þá að sýna sanngirni á móti.

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar, sagðist mjög ánægð með þjóðina sína og þakklát fyrir að fólk hafi nýtt sér kosningaréttinn. 

„Þetta er stór dagur fyrir lýðræðisumbætur í landinu  og mun hafa afgerandi áhrif á að við getum kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum í framtíðinni. Ég er einnig mjög ánægð með að það skyldi koma svona sterkt og afgerandi nei því það hjalpar okkur að fá betri niðurstöðu í Icesave."

mbl.is