Miðað við skoðanakannanir um afstöðu til Icesave-laganna og að afar fáir mæla með því á opinberum vettvangi að þau verði samþykkti, má gera ráð fyrir að meirihluti landsmanna greiði atkvæði gegn samningunum í þjóðaratkvæðagreiðslunni í dag.
Mun meiri óvissa ríkir á hinn bóginn um hver kjörsóknin verður. Kjörsókn í kosningum á Íslandi er góð, á alþjóðlegan mælikvarða, þrátt fyrir að hún hafi dalað undanfarna tvo áratugi eða svo. Í þingkosningunum í fyrra var kjörsókn t.a.m. um 85%, sem er heldur betri kjörsókn en árið 2007. Fáir búast við að kjörsókn að þessari fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu frá lýðveldisstofnun árið 1944 verði svo mikil.
Spurningin sem kjósendur standa frammi fyrir er í eðli sínu einföld. Annað hvort samþykkja þeir samninginn eða fella hann.
María Thejll, forstöðumaður Lagastofnunar Háskóla Íslands, segir að verði lögin nr. 1/2010 sem nú er kosið um felld úr gildi, haldi fyrri lög nr. 96/2009 gildi sínu óbreytt. Í fyrri lögunum er kveðið á um ýmis skilyrði og fyrirvara við samning sem var gerður við Breta og Hollendinga í júní 2009. Bretar og Hollendingar féllust hins vegar ekki á þá fyrirvara og því gátu samningarnir ekki tekið gildi. Deilan um Icesave leysist ekki með því að segja nei, því deila um uppgjör vegna Icesave-reikninganna er þá enn óleyst milli Íslendinga, Breta og Hollendinga.
Stefanía segir að ríkisstjórnin sé með þessu að reyna að fjarlægjast kosninguna og niðurstöðuna. Þá bendir hún á að Jóhanna og Steingrímur séu í þröngri stöðu; þau hafi samið við Breta og Hollendinga og heitið því að Íslendingar stæðu við sitt. Þau geti hins vegar varla stutt lögin, enda hafi komið fram að betra tilboð liggi á borðinu.