Fréttaskýring: Þjóðin gengur til kosninga

Raðir mynduðust í Laugardalshöll í utankjörstaðaratkvæðagreiðslu í gær.
Raðir mynduðust í Laugardalshöll í utankjörstaðaratkvæðagreiðslu í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Miðað við skoðanakannanir um afstöðu til Icesave-laganna og að afar fáir mæla með því á opinberum vettvangi að þau verði samþykkti, má gera ráð fyrir að meirihluti landsmanna greiði atkvæði gegn samningunum í þjóðaratkvæðagreiðslunni í dag.

Mun meiri óvissa ríkir á hinn bóginn um hver kjörsóknin verður. Kjörsókn í kosningum á Íslandi er góð, á alþjóðlegan mælikvarða, þrátt fyrir að hún hafi dalað undanfarna tvo áratugi eða svo. Í þingkosningunum í fyrra var kjörsókn t.a.m. um 85%, sem er heldur betri kjörsókn en árið 2007. Fáir búast við að kjörsókn að þessari fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu frá lýðveldisstofnun árið 1944 verði svo mikil.

Engin Já-hreyfing

Ýmislegt spilar hér inn í. Stjórnmálamenn, þ. á m. forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa sagt að í raun hafi Hollendingar og Bretar boðið betra samkomulag en það sem nú verður kosið um. Þá sagði forsætisráðherra í gær að hún myndi ekki mæta á kjörstað og fjármálaráðherra hafði ekki ákveðið sig. Það er því varla hægt að tala um Já-hreyfingu í þessu sambandi en hin óformlega Nei-hreyfing er þeim mun öflugri. Það blasir því við að þessi staða er ekki til þess fallin að hleypa spennu í kosningarnar og stuðla að jafn mikilli kjörsókn og í hefðbundnum kosningum. Ein vísbending um að kjörsókn verði lakari er að mun færri höfðu í gær kosið utan kjörfundar en venja er til. Á fimmtudag munaði þar um helmingi miðað við sama tíma í fyrra og árið 2007. Reyndar geta verið ýmsar skýringar á því, m.a. sú að færri eru á faraldsfæti í byrjun mars en í maí, þegar kosningar fara alla jafna fram. Þá skiptir auðvitað miklu að viðræður um nýjan samning stóðu fram á fimmtudag og lengi vel virtist vera möguleiki á að hætt yrði við atkvæðagreiðsluna. Aðsókn í utankjörfundaratkvæðagreiðsluna tók hins vegar kipp á miðvikudag og hefur síðan verið svipuð því sem gerist síðustu daga fyrir þingkosningar, samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum í Reykjavík.

Spurningin sem kjósendur standa frammi fyrir er í eðli sínu einföld. Annað hvort samþykkja þeir samninginn eða fella hann.

María Thejll, forstöðumaður Lagastofnunar Háskóla Íslands, segir að verði lögin nr. 1/2010 sem nú er kosið um felld úr gildi, haldi fyrri lög nr. 96/2009 gildi sínu óbreytt. Í fyrri lögunum er kveðið á um ýmis skilyrði og fyrirvara við samning sem var gerður við Breta og Hollendinga í júní 2009. Bretar og Hollendingar féllust hins vegar ekki á þá fyrirvara og því gátu samningarnir ekki tekið gildi. Deilan um Icesave leysist ekki með því að segja nei, því deila um uppgjör vegna Icesave-reikninganna er þá enn óleyst milli Íslendinga, Breta og Hollendinga.

Lítil umferð en kippur eftir að viðræðum lauk

Vefurinn thjodaratkvaedi.is er ætlaður þeim sem vilja fræðast um þjóðaratkvæðagreiðsluna og helstu álitamál sem snerta Icesave-samningana . Fáir skoðuðu vefinn framan af en umferðin tók greinilegan kipp eftir að fjara tók undan samningaviðræðum í London. Sjá má umferðina til hádegis í gær á línuritinu.

Óvenjulegar yfirlýsingar frá forystu

STEFANÍA Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir að vissulega sé óvenjulegt að forystumenn ríkisstjórnar lýsi því yfir að þeir muni ekki, eða líklega ekki, greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu, líkt og þau Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hafa gert. Jafnframt verði að hafa í huga að kosningin og staða Icesave-málsins sé mjög óvenjuleg og líklega sé það einsdæmi að fram fari kosning um mál samhliða því að verið sé að semja um niðurstöðu í því við aðrar þjóðir.

Stefanía segir að ríkisstjórnin sé með þessu að reyna að fjarlægjast kosninguna og niðurstöðuna. Þá bendir hún á að Jóhanna og Steingrímur séu í þröngri stöðu; þau hafi samið við Breta og Hollendinga og heitið því að Íslendingar stæðu við sitt. Þau geti hins vegar varla stutt lögin, enda hafi komið fram að betra tilboð liggi á borðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina