Ekki frekari lán til Íslands

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs.
Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs.

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, segist ekki telja að það komi til greina að Norðmenn veiti Íslendingum fjárhagsaðstoð umfram þá lánafyrirgreiðslu, sem þegar hefur verið heitið. Stavanger Aftenblad hefur þetta eftir ráðherranum en málið kom til umræðu á ársfundi Verkamannaflokksins í Rogalandi þar sem Gahr Støre var viðstaddur.

„Ef maður á 2600 krónur í bankanum og fjarskyldur ættingi kemur og biður um 30 króna lán, myndi maður ekki veita það?" spurði Karl Gjedrem nokkur á fundinum. Hann minnti á, að Noregur ætti ekki aðeins 2600 krónur í bankanum heldur 2600 milljarða norskra króna í olíusjóðnum svonefnda og væri því vel aflögufær.

Terje Emil Johannessen hvatti á fundinum norsk stjórnvöld til að leggja meira af mörkum til að aðstoða Íslendinga. Stavanger Aftenblad hefur eftir honum að það væri freistandi að hugsa sem svo, að Íslendingar eigi að gjalda fyrir að hafa leyft kapítalísku öflunum að leika lausum hala. En Ísland væri mikilvægt, einkum í nýtingu norðursvæðanna og því hlyti að vera hægt að rétta landinu hjálparhönd. 

Blaðið hefur eftir Gahr Støre, að Norðmenn legðu fram stærsta hlutann af Norðurlandalánunum til Íslands. Hins vegar sé Ísland ekki að glíma við náttúruhamfarir heldur mannleg vandamál.

„Íslendingar hafa í hverjum kosningunum á fætur öðrum frá árinu 1991 kosið stjórnmálastefnu sem hefur leitt til þess að landið er nú í þessari stöðu. Ég viðurkenni, að Íslendingar sáu þetta ekki allir fyrir en í lýðræði ber fólkið sjálft ábyrgð á þeirri stjórnmálastefnu sem það kýs. Ég vil ekki að norskir skattgreiðendur verði látnir borga þennan brúsa en við munum veita Íslendingum lán," hefur blaðið eftir Jonas Gahr Støre.

mbl.is