Sænskir þjóðernissinnar

Jimmie Åkesson.
Jimmie Åkesson.

Leiðtogi Sverigedemokraterna, flokks sænskra þjóðernissinna, krefst þess að sænska ríkisstjórnin virði vilja íslensku þjóðarinnar um Icesave-lögin og að hún aflétti án tafar frystingunni af lánunum til Íslands.

Í tilkynningu frá flokknum segir að Ísland þurfi nauðsynlega á lánafyrirgreiðslu að halda til að endurskipuleggja atvinnu- og fjármálalífið. Sænska ríkisstjórnin hafi samt fryst öll lán til Íslands til að þvinga Íslendinga til að fallast á Icesave-samningana sem nú hafi verið kolfelldir í þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi.

Haft er eftir Jimmie Åkesson, leiðtoga flokksins, að það ætti að vera sjálfsagt að aðstoða norrænt nágrannaland í vanda en því miður hafi sænska ríkisstjórnin valið að fylgja evrópskum stórþjóðum að málum.

„Ég krefst þess að ríkisstjórnin láti þegar í stað af þessari skammarlegu utanríkismálastefnu og tilkynni þess í stað að Svíar muni greiða út lánin sem samið hefur verið um án annarra skilyrða en þeirra sem eðlileg eru og að við munum jafnframt aðstoða Íslendinga við að koma því í kring að aðrir lánveitendur geri slíkt hið sama," er haft eftir Åkesson.

Flokkurinn Sverigedemokraterna var stofnaður árið 1988 og það er stefna hans að gera Svíþjóð að einsleitu samfélagi með því að draga stórlega úr fjölda innflytjenda í landinu. Flokkurinn fékk 2,9% atkvæða í þingkosningunum árið 2006 en stuðningur við hann hefur aukist undanfarin ár og er flokkurinn nú talinn eiga möguleika á að fá kjörna þingmenn í væntanlegum þingkosningum í haust.

mbl.is

Bloggað um fréttina