Sænskir þjóðernissinnar

Jimmie Åkesson.
Jimmie Åkesson.

Leiðtogi Sverigedemokra­terna, flokks sænskra þjóðern­is­sinna, krefst þess að sænska rík­is­stjórn­in virði vilja ís­lensku þjóðar­inn­ar um Ices­a­ve-lög­in og að hún aflétti án taf­ar fryst­ing­unni af lán­un­um til Íslands.

Í til­kynn­ingu frá flokkn­um seg­ir að Ísland þurfi nauðsyn­lega á lána­fyr­ir­greiðslu að halda til að end­ur­skipu­leggja at­vinnu- og fjár­mála­lífið. Sænska rík­is­stjórn­in hafi samt fryst öll lán til Íslands til að þvinga Íslend­inga til að fall­ast á Ices­a­ve-samn­ing­ana sem nú hafi verið kol­felld­ir í þjóðar­at­kvæðagreiðslu á Íslandi.

Haft er eft­ir Jimmie Åkes­son, leiðtoga flokks­ins, að það ætti að vera sjálfsagt að aðstoða nor­rænt ná­granna­land í vanda en því miður hafi sænska rík­is­stjórn­in valið að fylgja evr­ópsk­um stórþjóðum að mál­um.

„Ég krefst þess að rík­is­stjórn­in láti þegar í stað af þess­ari skamm­ar­legu ut­an­rík­is­mála­stefnu og til­kynni þess í stað að Sví­ar muni greiða út lán­in sem samið hef­ur verið um án annarra skil­yrða en þeirra sem eðli­leg eru og að við mun­um jafn­framt aðstoða Íslend­inga við að koma því í kring að aðrir lán­veit­end­ur geri slíkt hið sama," er haft eft­ir Åkes­son.

Flokk­ur­inn Sverigedemokra­terna var stofnaður árið 1988 og það er stefna hans að gera Svíþjóð að eins­leitu sam­fé­lagi með því að draga stór­lega úr fjölda inn­flytj­enda í land­inu. Flokk­ur­inn fékk 2,9% at­kvæða í þing­kosn­ing­un­um árið 2006 en stuðning­ur við hann hef­ur auk­ist und­an­far­in ár og er flokk­ur­inn nú tal­inn eiga mögu­leika á að fá kjörna þing­menn í vænt­an­leg­um þing­kosn­ing­um í haust.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina