„Vorum nálægt samkomulagi“

Steingrímur J. Sigfússon ræddi við erlenda blaðamenn í blaðamannamiðstöðinni í …
Steingrímur J. Sigfússon ræddi við erlenda blaðamenn í blaðamannamiðstöðinni í Iðnó undir kvöld. mbl.is/Kristinn

„Við vorum mjög nálægt því að komast að samkomulagi við Breta og Hollendinga fyrir helgi, en höfðum ekki nægan tíma til þess að ganga frá málinu og því urðum við ásátt um að gera stutt hlé á viðræðum og bíða fram yfir þjóðaratkvæðagreiðsluna,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í viðtali í fréttaskýringaþættinum Deadline á dönsku sjónvarpsstöðinni DR2 nú undir kvöld.

Tók hann fram að allir viðsemjendur hafi hins vegar verið sammála um að taka viðræður upp að nýju strax að kosningum loknum og sagðist vonast til þess að það gæti orðið á allra næstu dögum.

„Allir viðsemjendur hafa gefið það skýrt í skyn að þeir óski eftir því að finna lausn á málinu. Ég held það sé mikilvægt fyrir öll þrjú löndin sem að þessu koma að leysa málið og senda með því skýr skilaboð til umheimsins um það hvernig nágrannaþjóðir leysa úr máli á borð við Icesave.“

Steingrímur lagði áherslu á að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í gær um Icesvae-lögin hefði ekki átt að koma neinum á óvart þar sem enginn kosningabarátta hefði farið fram hérlendis og enginn hefði talað fyrir því að greitt væri atkvæði með Icesave-lögunum.

„Við þurfum nú í ljósi niðurstöðunnar að ræða við viðsemjendur okkar og reyna að finna ásættanlega lausn á málinu sem er betri fyrir Ísland,“ sagði Steingrímur og tók fram að miklu skipti að fá þetta hræðilega mál út úr heiminum þannig að stjórnvöld gætu einbeitt sér að því að endurreisa efnahag Íslands.

„Ég held einnig að það sé mikilvægt fyrir bæði Hollendinga og Breta að klára þetta mál áður en þingkosningar fara fram í löndunum tveimur.“

Danski spyrillinn rifjaði upp að í viðtali sem hann átti við Steingrím í upphafi janúar hefði Steingrímur lagt áherslu á að það yrði stórt vandamál greiddu landsmenn atkvæði gegn Icesave-lögunum. Spurður hvort hann væri enn þeirrar skoðunar svaraði Steingrímur því neitandi og benti á að það skýrðist af því að viðræður hefði verið komnar vel á skrið áður en til þjóðaratkvæðagreiðslunnar kom.

Spurður hvort niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar gæti nýst Íslendingum í komandi samningaviðræðum sagðist Steingrímur ekki vilja fara út í slíkar vangaveltur. „Í mínum huga snýst málið fyrst og fremst um réttáta skiptingu á þeim skaða sem Icesave-reikningarnir hafa valdið. Íslendingar hafa ekki lagst gegn því að axla sína ábyrgð í málinu, heldur barist fyrir því að lausnin væri réttlát og tekið væri mið af aðstæðum og því hversu stórt þetta mál er fyrir Íslendinga og að við verðum að fá lánakjör sem gera okkur kleift að endurbyggja efnahag landsins.“

Í ljósi ummæla Alistairs Darlings, fjármálaráðherra Breta, í dag í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar var Steingrímur spurður hvort hann vænti þess að breski ráðherrann myndi taka mýkra á málum en til þessa í samningaviðræðunum.

Steingrímur sagðist trúa því að allir vildu ná ásættanlegri niðurstöðu. „Slíkt krefst hins vegar vilja af allra hálfu. Ég held að viðsemjendur okkar hafi núna öðlast skilning á því hversu erfitt og einstakt þetta mál er fyrir Íslendinga. Þetta krefst lausnar sem allir geta sætt sig við. Þess vegna er ég frekar bjartsýnn á það að okkur takist í komandi samningalotu að koma Icesave-málinu út úr heiminum.“

Spurður hvort launin á Icesave-málinu muni hafa einhver áhrif á aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu sagði Steingrímur ekki telja að það væru nein tengsl þar á milli.

„Fulltrúar ESB hafa sjálfir sagt að þeir muni ekki blanda þessu máli inn í umsóknarferli okkar. Að okkar mati ætti slíkt hið sama að gilda um samstarf okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Icesave-málið er einstakt og sjálfstætt mál sem við, þjóðirnar þjár sem að því komum, verðum að leysa okkar í milli. Að mínu mati á ekki að blanda öðrum málum inn í þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina