60% telja að Íslendingum beri ekki að ábyrgjast greiðslur

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, greiðir atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, greiðir atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tæp 60% þeirra sem tóku þátt í könnun MMR um hvort Íslendingum beri að greiða Icesave-skuldbindingar segja að Íslendingum beri alls ekki að ábyrgjast greiðslur til innstæðueigenda í Bretlandi og Hollandi.

MMR kannaði afstöðu fólks til þess hvort það teldi að Íslendingum bæri að ábyrgjast greiðslur til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands (Icesave) í Bretlandi og Hollandi? Af þeim sem tóku afstöðu voru í 59,4% sem sögðu að Íslendingar ættu alls ekki að ábyrgjast slíkar greiðslur. 37,3% sögðu að Íslendingar ættu að ábyrgjast greiðslurnar að hluta til og 3,3% sögðu að Íslendingar ættu að ábyrgjast greiðslur til innstæðueigendanna að fullu.

Þegar svör við spurningunni voru skoðuð eftir lýðfræði svarenda kom í ljós að andstaðan við að Íslendingar gengjust í ábyrgð fyrir greiðslum til innstæðueigenda í Bretlandi og Hollandi var yfir 50% í öllum hópum. Mest var andstaðan meðal fólks með undir 250 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði, en 68,0% svarenda úr þeim hóp svöruðu spurningunni með „Nei – alls ekki“.

Sjá nánar hér

mbl.is