„Er samningsmarkmiðið að koma ríkisstjórninni frá?“

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, taldi ástæðu til að spyrja hvort verið væri að tala um Icesave eða ríkisstjórnina í umræðunni á Alþingi sem nú fer fram um Icesave-lögin. 

Sagðist hann einn þeirra sem fagnaði nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þátttaka var mikil og niðurstaðan afdráttarlaus auk þess sem tækifæri hefði gefist til þess að kynna málstað Íslendinga út á við.

„Ef við höldum hópinn og gerum það sem við höfum gert á síðustu vikum þá mun okkur áfram miða umtalsvert. Við höfum bætt samningsstöðu Íslendinga. Vextirnir sem næst hafa niður eru ígildi niðurskurðar ríkisins á tveimur árum sem er stórkostlegur árangur,“ sagði Ögmundur og bætti við:

„Þegar stjórnarandstaðan vill endurskoða samningsmarkmið þá vil ég hlusta. Er samningsmarkmiðið núna að koma ríkisstjórninni frá? Ef svo er þá verð ég ekki með í því,“ sagði Ögmundur. 

Minnti hann á að mikið væri rætt um það að allir Íslendingar yrðu að leggjast á árarnar. „Forsenda þess að allir geti lagst á árarnar er að allir seú í sama báti. Það höfum við ekki verið Íslendinga á umliðnum árum vegna þeirrar misskiptingar sem hér hefur verið innleidd,“ sagði Ögmundur og spurði í framhaldinu hvaða flokkum væri best treyst til þess að koma Íslendingum í sama bátinn og sagðist sjálfur telja að það væru núverandi ríkisstjórnarflokkar.


mbl.is

Bloggað um fréttina