Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, gerir ráð fyrir að fundir íslensku samninganefndarinnar með Bretum og Hollendingum hefjist seint í þessari viku. Þá gerir hann ráð fyrir að formenn stjórnar og stjórnarandstöðu eigi símafund með formanni íslensku samninganefndarinnar seinna í dag.
Steingrímur sagðist hafa í dag rætt við Lee Buchheit, formann íslensku samninganefndarinnar og væri hann tilbúinn til að halda símafund með íslensku stjórnmálaforingjunum. Þá upplýsti Steingrímur á Alþingi að hann hefði í dag rætt við fjármálaráðherra Hollands sem hefði lýst vilja til að taka upp viðræður að nýju.