Gagnrýni Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á Norðurlöndin fyrir að hafa með beinum eða óbeinum hætti stutt þann þrýsting, sem Bretar og Hollendingar hafa beitt Íslendinga í Icesave-málinu, hefur vakið mikla athygli í Noregi. Aðalhagfræðingur fjármálafyrirtækisins First Securities segir við vefinn E24 í dag, að Íslendingar geti engum öðrum kennt um efnahagsástandið á Íslandi en sjálfum sér.
„Gagnrýni Íslendinga á Norðmenn hittir þá sjálfa fyrir. Forsetinn er að hengja bakara fyrir smið. Hvorki Norðmenn eða aðrar þjóðir eiga nokkrum skyldum að gegna gagnvart Íslendingum. Hverjir aðrir eiga að taka á sig tapið en Íslendingar? Þeir bera einir ábyrgð á þeim mistökum sem gerð voru," segir Magnus Andreassen við E24.
Ólafur Ragnar sagði við norska blaðið Aftenposten á laugardagskvöld, að Norðurlöndin hefðu öll beint eða óbeint stutt þann þrýsting, sem Bretland og Holland hafa beitt Ísland. „Það er ekki notalegt að segja þetta en það er samt staðreynd. Þetta er greinilega vandræðalegt mál fyrir þau," hafði Aftenposten eftir Ólafi Ragnari.
Andreassen segir, að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að bjarga íslenskum sparifjáreigendum og tryggja innistæður þeirra í íslenskum bönkum. Þeir sem áttu innistæður á íslenskum reikningum í Bretlandi og Hollandi hafi hins vegar ekki fengið slíkan stuðning.
„Það má ræða vexti og afborganir. En það er ekki hægt að búast við því, að Bretar og Hollendingar, eða Norðmenn, eigi að axla tapið en Íslendingar bjargi bara sjálfum sér," segir Andreassen.
Hann bætir við, að margir íslenskir fjármálamenn hafi fleytt rjómann af góðærinu áður en allt fjármálakerfið á Íslandi hrundi eins og spilaborg. „Íslendingar gerðu mistök og hagkerfið þeirra var uppblásin blaðra. Það högnuðust margir á þessu ástandi, ekki aðeins 30-40 bankastjórar," segir Andreassen.
Hann bætir við, að reikningurinn, sem Íslendingar þurfa að greiða vegna Icesve, sé alls ekki jafn hár og sagt hafi verið. Væntanlega fái Íslendingar betri samning við Breta og Hollendinga en áður lá fyrir og einnig muni eignir Landsbankans mæta stærstum hluta þessarar skuldar.
Andreassen segir, að það sé í raun innlenda bankakreppan, sem hafi leikið Íslendinga verst. Meðal annars hafi fasteignabóla leitt til þess, að skuldir íslenskra heimila séu allt of miklar.