„Þjóðaratkvæðagreiðslan markaði tímamót af því hún markaði brautina að beinu lýðræði og það er jákvætt,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, en hún fór yfir stöðuna að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu í upphafi þingfundar í dag. Þakkaði hún tækifærið til ræða málið á þinginu í dag.
„Úrslitin voru skýr um kosningaefnið sjálft, en þau ljúka hvorki málinu né leysa vandann. Þrátt fyrir skýr úrslit er enn ósamið í Icesave-deilunni,“ sagði Jóhanna og minnti á að strax í kjölfar synjunar forsetans hafi verið skipuð nýja samninganefnd í góðri sátt allra flokka. Sagði hún áherslu hafa verið lögð á að sá þráður sem náðst hafi í nýjum samningaviðræðum slitnaði ekki þó til þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi.
Íslensk stjórnvöld munu áfram vinna að lausn málsins. Sagði hún mikilvægt að halda áfram samningaviðræður í þverpólitískri sátt. Upplýsti hún að ríkisstjórnin hygðist sem fyrst funda með fulltrúum stjórnarandstöðunnar til þess að ræða næstu skref. Sagðist hún vænta þess að góð sátt myndi áfram ríkja manna á meðal í málinu.
Jóhanna minnti á hvað töf á sátt um málið hefði kostað íslenskt samfélag mikið, þannig hefði efnahagsleg endurreisn ríkisins tafist um a.m.k. hálft ár. Sagði hún vandasamt að reikna út í krónum og aurum hvað töfin hefði kostað, en kostnaðurinn væri samt áþreifanlegur.
Jóhanna minnti á orð Diminique Strass-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um helgina þess efnis að Icesave-deilan væri einkamál landanna þriggja sem að deilunni komi.
Gagnrýndi hún stjórnarandstöðuna fyrir að vilja stjórna úr aftursætinu án þess að taka ábyrgð á málum. Sagði hún út í hött að túlka þjóðaratkvæðagreiðslunnar um helgina sem vantraust á ríkisstjórnina, enda málið allt afmarkaður fortíðarvandi.
Minnti hún á að ríkisstjórnin hefði þingstyrk til þess að koma mikilvægum málum í gegnum þingið. Hún ítrekaði að hún væri ávallt reiðubúin til þess að leita sátta, en hins vegar væri ekki hægt að taka tillit til ítrustu óska.