Lítil ummerki um erfiðleika

Hummer á ferð
Hummer á ferð

Blaðamaður hollenska dagblaðsins Volkskrant sér lítil ummerki um að Ísland hafi orðið illa út úr kreppunni í heimsókn sinni til höfuðborgar landsins, Reykjavík. Þú gætir jafnvel talið að ekkert væri að, skrifar  blaðamaðurinn í fréttinni.

Lýsir blaðamaðurinn Hummer bifreiðum sem hann sér við Laugaveginn. Yfirfullir veitingastaðir og næturlífið blómstrar. Hann veltir því fyrir sér hvort þetta sé virkilega landið sem fór einna verst út úr fjármálakreppunni árið 2008.

Samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti á föstudag hafi landsframleiðslan dregist saman að raungildi um 6,5% í fyrra og um sé að ræða mesta samdrátt á ársgrundvelli allan lýðveldistímann. Hins vegar sé samdrátturinn einungis 2,5 prósentustigum meiri heldur en í Hollandi og miklu minni heldur en í Eystrasaltsríkjunum.

Í Volkskrant er rætt við nokkra Íslendinga um stöðu mála. Þar á meðal Guðrúnu Ingólfsdóttur sem flutti heim nýverið frá Bandaríkjunum. Hún hafi fengið góða stöðu í banka og vilji ala börn sín upp í landinu sem hún ólst sjálf upp í.

Guðmundur Franklín Jónsson, athafnamaður, er afar ánægður með að vera fluttur heim til Íslands á ný samkvæmt Volkskrant en hann starfaði áður sem verðbréfamiðlari á Wall Street og hótelrekstur í Prag.

Fjallað er um vefinn Meniga sem Georg Lúðvíksson stýrir en hugbúnaður fyrirtækisins er notaður af fjölda ílenskra heimila til þess að halda utan um útgjöld heimilisins. Segir blaðamaðurinn að hugbúnaðurinn hafi notið mikilla vinsælda en um nýja afurð sé að ræða.

Frétt Volkskrant

mbl.is
Loka