Höfnun Íslendinga á Icesave-lögunum getur þýtt að deilan við Breta og Hollendinga getur dregist á langinn, samkvæmt því sem Kenneth Orchard, sérfræðingur hjá alþjóðlega matsfyrirtækinu Moody's segir í viðtali við Bloomberg fréttastofuna.
Á hann eins von á því að deilan leysist ekki fyrr en um mitt ár 2011. Höfnun getur þýtt að erfiðara verður að ná samkomulagi. Telur hann að ekki verði hægt að semja fyrr en að afloknum þingkosningum í Bretlandi og Hollandi.
Viðtalið við Orchard var tekið áður en niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar lá fyrir. Ekki er langt síðan Moody's tilkynnti um að ef Icesave-deilan myndi ekki leysast fljótlega þá væri viðbúið að fyrirtækið myndi lækka lánshæfiseinkunn Íslands niður í ruslflokk.
Orchard segir að síðustu forvöð fyrir Íslendinga að ná samkomulagi sé í desember 2011 en þá þurfi ríkissjóður að reiða fram 1 milljarð evra í afborganir af lánum. Hann segir Íslendinga eiga nægt fé í erlendum gjaldeyri til að standa í skilum af afborgunum að skuldabréfum en ekki sé raunhæft að nota þá sjóði því þá myndi gjaldeyrisforðinn hverfa fljótt. Segir í frétt Bloomberg að skuldatryggingaálag ríkissjóðs hafi lækkað hratt á föstudag þegar væntingar voru um að samningar væru að nást. Hafi það farið niður í 450 punkta á fimm ára skuldabréfum eftir að hafa farið í 675 punkta þann 1. febrúar.