Ríkisstjórnin verður að hlusta

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mbl.is/Ómar Óskarsson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokks, minnti á að þjóðin hefði um helgina hafnað „hörmungasamningi sem fjármálaráðherra bæri alla ábyrgð á.“ 

Þorgerður sagði ömurlegt að heyra forsætisráðherra tala niður þjóðaratkvæðagreiðsluna fyrir helgina. Sagði hún þetta vond skilaboð frá forystumönnum ríkisstjórnarinnar, sérstaklega í ljósi þess að miklar líkur séu til þess að fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur verði haldnar á næstu árum.

„Ríkisstjórnin verður að hlusta á og skynja þessa sögulega helgi. Við viljum öll samstöðu en ekki fyrir hvað sem er. Við sjálfstæðismenn höfum alltaf sagt að þessar kosningar snérust ekki um líf ríkisstjórnarinnar. Auðvitað styrktist samningsstaða okkar Íslendinga um helgina og við verðum að segja það skýrt og skorinort. Á næstu dögum mun skýrast hvort ríkisstjórnin hafi vilja til þess að nálgast samningaviðræðurnar á forsendum þjóðarinnar.“

mbl.is