Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði rétt að hann hefði lýst því yfir að hann vildi bera pólitíska ábyrgð á Icesave-málinu og hann stæði við það. „Þjóðaratkvæðagreiðslan er að baki og desember-lögin eru fallin úr gildi og tækilega gilda lögin frá því í sumar og málið er enn óleyst. Viðfangsefnið er því að leysa þetta mál.“
Sagðist hann vonast til þess að hægt væri að halda í þá samstöðu sem myndast hefði flokka í milli við lausn Icesave-deilunnar. „Við þurfum að spyrja okkur ýmissa spurninga, hér á Alþingi er löggjafarvaldið og fjármálavaldið, en framkvæmdavaldið í höndum ríkisstjórnar. Það sem meira er, ábyrgðin er hér hjá Alþingi. Aðalatriðið eru verkefnin framundan. Því það sem er liðið er liðið.“
Steingrímur upplýsti að hann hefði í dag rætt við formann íslensku samninganefndarinnar og hollenska fjármálaráðherrann um hvernig málum verði nú þokað áfram og unnið að því að finna lausn á málinu. Sagði hann ljóst að hjá viðsemjendum okkar væri vilji til þess að halda samningaviðræðum áfram á allra næstu dögum.
Sagði hann Ísland enn eiga í erfiðum aðstæðum. „Það er mikilvægt að við getum eftir því sem í boði er haft hér meira andrúmsloft meiri samstöðu og samvinnu. Það á ekki síst við um þessa stofnun hér, Alþingi. Við þurfum og eigum að vanda okkur við að vinna saman um þau mál sem við erum sammála um. Það eru brekkur eftir. Ekki bara ein há eins og segir í kvæðinu heldur margar og langar.“