Flokksleiðtogar á fundi

Leiðtogar stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna settust á símafund með Lee Buchheit, formanni íslensku Icesave-samninganefndarinnar, í hádeginu í dag. Þar átti að fjalla um hvort samninganefndin fái endurnýjað umboð til að ræða við Breta og Hollendinga og reyna að leiða Icesave-deiluna til lykta.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund í morgun, að hún teldi ekki mikinn þunga í ummælum fulltrúa stjórnarandstöðunnar um nýjar kosningar í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Hún sagði, að samstarfið við stjórnarandstöðuna um Icesave-samningana hefði gengið nokkuð vel allt þangað til þjóðaratkvæðagreiðslan nálgaðist. 

Ríkisstjórnin ræddi meðal annars á fundi sínum í morgun um endurnýjun efnahagsáætlunar Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Jóhanna sagði, að miðað við yfirlýsingar forsvarsmanna sjóðsins, ætti ekkert að standa í vegi fyrir þeirri endurskoðun svo framarlega sem Icesave-málið sé í eðlilegum farvegi.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, var spurður, í ljósi yfirlýsinga framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á sunnudag um að Icesave-málið hefði engin áhrif á samstarf sjóðsins við Íslands, hvort ástæða væri til að endurskoða samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn ef ekkert bólaði á næstu endurskoðun. Steingrímur svaraði því ekki beint en sagði, að stjórnvöld yrðu að endurmeta fjárþörfina frá sjóðnum ef endurskoðunin tefðist. 

Leiðtogar stjórnmálaflokkanna settust á símafund með Lee Buchheit um hádegisbil.
Leiðtogar stjórnmálaflokkanna settust á símafund með Lee Buchheit um hádegisbil. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina