„Ef Ísland fer ekki eftir alþjóðlegum skuldbindingum sínum vitum við ekki hvers vegna við ættum að horfa á jákvæðan hátt til Íslands ef landið sækir um aðild að Evrópusambandinu.
Það er fyrra atriðið. Hitt er að við vitum ekki hvers vegna við ættum að líta jákvæðum augum á umsókn Íslands um lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum,“ segir Frans de Nerée tot Babberich, talsmaður þingflokks Kristilegra demókrata (CDA) í efnahagsmálum í Hollandi.
Vart er hægt að skilja orð hans öðruvísi en sem hótun, enda hafa Hollendingar áhrif innan sjóðsins.
Neðri deild þingsins samþykkti ályktun um stöðuna þar sem farið er fram á skjóta lausn málsins og að þrýstingurinn á Ísland verði aukinn.
Þá var meirihluti þingdeildarinnar sammála um að aðild Íslands að ESB kæmi að óbreyttu ekki til greina.
Sjá nánari umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.