Leiðtogar Evrópusambandsins munu væntanlega ákveða formlega á
fimmtudag, 17. júní, hvort hefja eigi viðræður við Íslendinga. Í frétt
hollenska útvarpsins kemur fram að Hollendingar og Bretar vinni að því
bak við tjöldin að það verði sett sem skilyrði fyrir að svo verði að
Íslendingar greiði til baka það fé sem ríkin tvö þurftu að greiða vegna
Icesave reikninga Landsbankans í ríkjunum tveimur.
Hollendingar og Bretar bíða enn eftir tilboði frá Íslendingum um endurgreiðslu á 3,8 milljörðum evra, samkvæmt frétt hollenska útvarpsins.
Eftir að Íslendingar höfnuðu samkomulagi um
endurgreiðslu í þjóðaratkvæðisgreiðslu í mars hefur ekkert þokast áfram í
samkomulagsátt, samkvæmt frétt hollenska útvarpsins.
Utanríkisráðherra Hollands, Maxime Verhagen, segir að Íslendingar verða að leggja sitt af mörkum til þess að ná samkomulagi vegna Icesave. Hann segir það afar skrýtið að íslensk stjórnvöld vilji ræða aðild að ESB á sama tíma og þau vilji ekki ræða endurgreiðslu Icesave.
Þrátt fyrir þetta telur Verhagen að Íslendingar eigi heima í ESB, ekki síst vegna þess að það myndi styðja Íslendinga í að endurgreiða féð.
Utanríkisráðherra ESB ríkjanna gengu frá uppkasti að samþykki fyrir aðildarviðræðum við Íslendinga á fundi sínum í gær. Í uppkasti að yfirlýsingunni kemur fram að ítrekað er að Íslendingar verði að standa við skuldbindingar sínar vegna Icesave.
Samkvæmt frétt Reuters fréttastofunnar hafa Hollendingar og Bretar sagt að þeir myndu ekki koma í veg fyrir aðildarviðræður við Íslendinga enda hafi þeir fengið tryggingu fyrir því að Íslendingar muni standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar gagnvart ríkjunum tveimur.
Hefur Reuters eftir William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, að Bretar muni ekki standa í veg fyrir aðildarviðræðum Íslendinga við sambandið.
„En við viljum að það sé alveg á hreinu að þegar viðræðurnar hefjast að Ísland sé skuldbundið til þess að finna lausn á fjárhagslegum og lagalegum skyldum sínum, að standa við fjárhagslegar og lagalegar skuldbindingar sínar. Það er alveg ljóst," sagði Hague við fréttamenn í gær.