Icesave er saga afdrifaríkra mistaka

Saga Icesave-málsins er saga afdrifaríkra mistaka, segir í drögum að stjórnmálaályktun Sjálfstæðisflokksins sem rædd er á landsfundinum sem stendur yfir.

Óumdeilt er að Icesave-málið verðar einhverja mestu þjóðarhagsmuni sem íslensk stjórnvöld hafa þurft að takast á við. Núverandi ríkisstjórn hefur mistekist illilega að leiða það mál til lykta með hagsmuni íslenska ríkisins og íslenskra skattgreiðenda að leiðarljósi.

Algjör uppgjöf núverandi ríkisstjórnar gagnvart óbilgjörnum og löglausum kröfum Breta og Hollendinga er með öllu óviðunandi. Sú uppgjöf sýnir að ríkisstjórnin hefur hvorki getu né burði til þess að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar í þessu mikilvæga máli.

Sögulegt afhroð ríkisstjórnarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-málið hinn 6. mars síðastliðinn sýnir með afgerandi hætti að ríkisstjórnin nýtur ekki trausts þjóðar sinnar til þess að leiða málið til lykta. Þá bendir framganga ríkisstjórnarinnar, eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út, til þess að ríkisstjórnin ætli ekki að draga neina lærdóma af lagalegri stöðu íslenska ríkisins í Icesave-málinu eins og henni er lýst í skýrslunni,að því er segir í drögum að stjórnmálaályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði fyrir skemmstu fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar sem mælir fyrir um að fram fari rannsókn á embættisfærslum og ákvörðunum íslenskra stjórnvalda og samskiptum þeirra við bresk og hollensk stjórnvöld í Icesave-málinu. Nauðsynlegt er að slík rannsókn fari fram.

Fullt tilefni er til þess úr því verði skorið hvort einstakir ráðherrar eða embættismenn á þeirra vegum hafi fylgt þeim lagareglum sem um störf þeirra gilda, þeir brotið starfsskyldur sínar eða þeir gerst sekir um mistök eða vanrækslu í hagsmunagæslu sinni fyrir íslenska ríkið og íslensku þjóðina í Icesave-málinu, eins og sterkar vísbendingar eru um.

Einar Kr. Guðfinnsson kynnti stjórnmálaályktanir Sjálfstæðisflokksins í dag
Einar Kr. Guðfinnsson kynnti stjórnmálaályktanir Sjálfstæðisflokksins í dag mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Loka